„Þetta olli mér gífurlegum vonbrigðum á sínum tíma. En þá kváðu reglurnar hjá RÚV á um það að allir lagahöfundar og textahöfundar yrðu að vera af íslensku bergi brotnir,“ sagi Páll Óskar í hlaðvarpsþættinum Eurovísi sem birtur var í gær. Hann var gestur í þættinum ásamt Jakobi Frímanni Magnússyni, miðborgarstjóra og fyrrum Eurovision-kynni. Árið 2008 var reglunum breytt þannig að tveir þriðju hluta lagsins og helmingur texta séu eftir íslenska höfunda.
Sjá einnig: Páll Óskar í Eurovision 2016?
Páll Óskar og Jakob Frímann voru báðir afar gagnrýnir á strangar reglur Ríkisútvarpsins
„Mörður Árnason kom með það að það mætti alls ekki hafa lagið á ensku þó svo að keppnin fari fram á ensku að mestu leyti. Það hefur gilt til dagsins í dag að öll undankeppnin þarf að vera á íslensku. Þetta er svona eisn og að senda handboltalandsliðið í æfingabúðir með kartöflupoka sem þeir kasta á milli sín og svo fara þeir á vettvang og fá þá handbolta til að keppa með,“ sagði Jakob Frímann.
Jakob sagðist hafa rætt þetta margoft við bæði útvarpsstjóra og dagskrárstjóra Ríkisútvarpsins. Hann er á þeirri skoðun að það eigi að vera ákvörðun höfundarins á hvaða tungumáli hann vilji semja lagið, það séu grundvallarmannréttindi.

Plata Páls Óskars, Allt fyrir ástina, var gefin út árið 2007 og naut gríðarlegra vinsælda hér á landi. Eiríkur Hauksson fór út fyrir Íslands hönd með lagið Valentine‘s lost, en þrátt fyrir frábæra frammistöðu komst hann ekki upp úr undanúrslitunum.
Viðtalið í heild má heyra í spilaranum hér fyrir ofan. Í lok viðtalsins syngur Páll Óskar Eurovision-lagið sitt frá árinu 1997 og leikur Ásgeir Ásgeirsson undir.
Eurovísir er nýtt vikulegt hlaðvarp á Vísi þar sem hitað verður upp fyrir Eurovision sem fram fer í Vínarborg í maí. Umsjónarmenn þáttarins eru Aðalsteinn Kjartansson og Sunna Karen Sigurþórsdóttir.