Handbolti

Umfjöllun og viðtöl: FH - Afturelding 29-28 | FH sigur í hádramatískum leik

Anton Ingi Leifsson skrifar
Andri Berg Haraldsson lék vel fyrir FH í kvöld.
Andri Berg Haraldsson lék vel fyrir FH í kvöld. Vísir/Valli
FH vann óvæntan sigur á Aftureldingu í Olís-deild karla í handbolta í kvöld. FH-ingar voru betri í fyrri hálfleik og hluta úr síðari hálfleik, en þá söxuðu gestirnir á forskot heimamanna sem unnu að lokum með minnsta mun, 29-28.

FH spilaði frábæran varnarleik með Ágúst Elí Björgvinsson í feikna formi fyrir aftan sig og uppskriftin var eftir því. Gestirnir úr Mosfellsbæ áttu fá svör og sóknarleikur þeirra var frekar neyðarlegur, þá sérstaklega í fyrri hálfleik. Í síðari hálfleik var annað á teningnum og Afturelding vann sig inn í leikinn, en FH vann eins og fyrr segir.

Gestirnir skoruðu fyrsta markið, en eftir það tóku hvítklæddir heimamenn öll völd á vellinum. Þeir skoruðu næstu fimm mörk og staðan eftir tólf mínútna leik 5-1, FH í vil. Þá var Einari Andra Einarssyni, þjálfara Aftureldingar, nóg boðið og tók leikhlé. Einar var allt annað en sáttur með leik sinna manna sem virkuðu kærulausir.

Það verður þó ekki tekið af FH-ingum að þeir spiluðu frábæra vörn í fyrri hálfleik. Þeir spiluðu hana framarlega og gestirnir voru í allskyns vandræðum með að skapa sér opin færi. Þeir þurftu oftar en ekki að taka erfið skot utan af velli og sóknarleikur þeirra var ekki burðugur. FH náði mest sjö makrka forystu og munurinn var einmitt sjö mörk í hálfleik, 16-9.

FH hélt uppteknum hættu í síðari hálfleik og leiddi með sjö mörkum þegar stundarfjórðungur var til leiksloka. Þá byrjuðu hins vegar Mosfellingar að leika betur og betur og heimamenn fóru að þreytast. Mikill kraftur fór í þeirra varnarleik og það dró af þeim í síðari hálfleik.

Einhverjir héldu að Ásbjörn Friðriksson væri að klára leikinn þegar hann kom FH fjórum mörkum yfir, 29-25, þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir, en gestirnir voru ekki hættir. Jóhann Jóhannsson minnkaði muninn í 29-28 þegar rúm mínúta var eftir, en allt kom fyrir ekki. Heimamenn náðu að verja forskotið með kjafti og klóm og lokatölur 29-28.

Andri Berg Haraldsson lék á alls oddi í liði FH. Hann var með fimm mörk úr fimm skotum í fyrri hálfleik og bætti við þremur mörkum í þeim síðari. Magnús Óli Magnússon og Ásbjörn Friðriksson gerðu svo sitt hvor sex mörkin. Ágúst Elí varði vel í fyrri hálfleik, en varnarleikurinn var frábær hjá FH; þá sérstaklega í fyrri hálfleik.

Hjá Aftureldingu voru Pétur Júníusson og Jóhann Gunnar Einarsson í sérflokki. Pétur skoraði níu mörk, en Jóhann Gunnar sjö. Aðrir skoruðu minna. Þeir hafa í nánast öllum leikjum sínum, fullyrði ég, spilað betri sóknarleik í röð. Hann var ómarkviss og þeir áttu engin svör við framliggjandi vörn FH-inga.

FH er enn í fjórða sætinu eftir sigurinn, en liðið er þremur stigum á eftir ÍR sem er í þriðja sæti. ÍR á þó leik til góða. Afturelding er í öðru sæti með 33 stig, þremur á eftir Val. Með sigri í kvöld hefði Afturelding getað minnkað forskot Vals niður í eitt stig því Valur tapaði óvænt gegn Fram.

Davíð Svansson: Hann lét okkur heyra það

„Þú átt ekki skilið neitt út úr svona leik þegar þú spilar vörn svona allan leikinn,” voru fyrstu viðbrögð hundfúls markmanns Aftureldingar í leikslok, Davíðs Svanssonar. En hvað fór úrskeiðis?

„Vörnin, sóknin. Nei ég meina, hvað var gott? Þetta var fáranlega léleg vörn og alveg skelfilegur sóknarleikur.”

„Þetta var ekki góður síðari hálfleikur, en hann var skömminni skárri en fyrri hálfleikurinn. Þetta var aldrei á pari hérna í dag,” sem segir að Einar Andri, þjálfari Aftureldingar, hafi látið þá heyra það í hálfleiks-ræðu sinni.

„Hann lét okkur heyra það, en við áttum það skilið. Við vorum bara ekki nægilega miklir menn til að skila sigri hér í dag. Það er bara svoleiðis.”

„Þetta var algjör hörmung. Við erum með mikla betra lið en þetta og erum með það mikla hæfileika og breidd. Ég veit ekki hvað gerðist. Það kemur bara svona niðursveifla eins og til dæmis á móti HK fyrir áramót,” sagði Davíð. Hann segist liðið ætla halda þessu öðru sæti sem það er í núna.

„Við ætlum að halda þessu öðru sæti og við þurfum að vinna fyrir því. Það er vika í næsta leik og við fáum smá tíma til að koma okkur í gang,” sagði Davíð að lokum.

Halldór Jóhann: Ætlum að verja fjórða sætið með kjafti og klóm

„Það voru gríðarlega góðar 45 mínútur sem lögðu grunninn að þessum sigri,” sagði Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari FH, í leikslok.

„Við vissum að við myndum fá á okkur áhlaup og við myndum gefa eftir varnarlega. Við vorum að reyna að skipta mönnum inná og við vildum halda Andra Berg eins mikið inn á og við gátum sóknarlega, þannig við þurftum að taka langa skiptingu.”

„Þetta var dálítið púsluspil hjá okkur. Við vorum að spila þetta dálítið eftir mannskap og hvað við vorum með í höndunum. Ég er gríðarlega stoltur af strákunum að koma hérna og vinna.”

„Aftureldingar-liðið er gífurlega gott lið. Það er í öðru sæti og við með okkar skakkaföll; menn í meiðslum og annað. Síðustu tvær vikur hafa verið erfiðar og að vera hérna á heimavelli og vinna er gífurlega öflugt fyrir okkur.”

„Vörnin heppnaðist einstaklega vel. Við vorum rosalega agressívir og við vorum að leysa hana mjög vel. Þetta kom kannski dálítið flatt uppá þá, ég veit það ekki. Við höfum verið að spila 3-2-1, en ekki alveg svona rosalega agressíva vörn.”

„Við spiluðum nánast fullkomna vörn í fyrri hálfleik. Við vorum samt að klikka á svona einu og einu dauðafæri, tveimur vítum og svona. Ég hefði viljað hafa muninn tíu mörk í hálfleik miðað við hvað við vorum að klikka mörgum dauðafærum. Svo reyndum við að nýta allt sem við gátum í að spila mjög agaðan sóknarleik. Við skoruðum 29 mörk og það er rosalega gott á móti Aftureldingu.”

„Við erum búnir að vera í miklu brasi undanfarið. Við erum að spila á fáum leikmönnum og það hafa verið rosalega margir leikir að undanförnu. Við vissum að það myndi koma í bakið á okkur og við myndum eiga einhverja niðursveiflu.”

„Núna er vikurfrí og strákarnir fá þriggja daga frí eftir þennan leik. Það er kærkomið. Við erum að spila með marga annan flokks stráka í liðinu og við þurfum að hugsa um strákan og reyna fá góða endurheimt á næstu dögum. Svo ætlum við að vera klárir í næstu leiki því við ætlum að verja þetta fjórða sæti með kjafti og klóm,” sagði Halldór Jóhann við Vísi í leikslok.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×