Lífið

Með Bradley Cooper í þrjá tíma: „Hann er flott fyrirmynd og ég bíð bara spennt eftir því hver kemur næst“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Anna María Tómasdóttir er nemandi í The Actors Studio Drama School.
Anna María Tómasdóttir er nemandi í The Actors Studio Drama School. vísir/daníel/aðsend
„Skólinn sem ég er í fær reglulega til sín gestafyrirlesara í formi sjónvarpsþátta sem heita Inside the Actors Studio, þar sem við nemendurnir fáum að kynnast einstaklingum innan fagsins sem hafa átt mikilli velgengi að fagna og oftar en ekki eru meðlimir í The Actors Studio,“ segir Anna María Tómasdóttir sem er í mastersnámi í leikstjórn í The Actors Studio Drama School, í New York. Í síðustu viku mætti sjálfur Bradley Cooper í skólann og hélt þriggja tíma fyrirlestur fyrir bekkinn.

„Á síðustu önn kom Sting, Mariska Hargitay og Neil Patrick Harris í þessa stjónvarpsþætti. Einnig koma stundum gestafyrirlesarar og eiga nánari stund með okkur nemendunum  og þá fáum við að spyrja þá spjörunum úr. Þetta er ekki sjónvarpað og í þetta skipti kom Bradley Cooper sem útskrifaðist úr skólanum árið 2000.“

Einn besti leiklistarskóli í heiminum

Leiklistarskólinn er á lista yfir þá allra bestu í heiminum en þar hafa heimsþekktir leikarar líkt og Bradley Cooper menntað sig en Al Pacino er listrænn stjórnandi við skólann. Cooper var tilnefndur til Óskarsverðlauna á dögunum en hann fór með aðalhlutverið í myndinni American Sniper.

Anna María er fyrsti Íslendingurinn sem kemst inn þetta mastersnám. Hún er alls ekki ókunnug leiklistinni en hún hefur unnið að leikmyndum og búningum við hinar ýmsu bíómyndir, sjónvarpsþætti og auglýsingar, ásamt því að hafa sett upp verk, skrifað og leikstýrt. 

Sjá einnig: Súrrealískt að vera komin inn í skólann

„Þetta var allt saman frekar spennandi hver kæmi  og var búið að halda því leyndu fyrir okkur. Ýmsir komu til greina en samt líklegast að það yrði Bradley, enda hefur hann öðlast mestu frægðina úr skólanum. Það er ótrúlega skrítin tilfinning að hitta svona stórstjörnur, manni finnst einhvern veginn eins og þetta fólk sé ekki raunverulegar manneskjur og bara til í draumalandinu Hollywood. Á sama tíma finnst manni eins og maður þekki þær náið eftir að hafa kannski kúrt upp í rúmi og horft á hann dansa sig inn í hjarta Jennifer Lawrence.“

Spjallþátturinn Inside The Actors Studio hefur lengi notið gríðarlegra vinsælda en James Lipton stjórnar þættinum Lipton fær til sín þekkt fólk úr leiklistarheiminum og ræðir við það um daginn og veginn.

Hér má sjá Bradley Cooper ásamt Elizabeth Kemp, leiktæknikennara, Andreas Manolikakis, og Bill Coco.
Áhorfendur í sal, sem allt eru nemendur við skólann, eiga svo möguleika á að spyrja viðmælandann spjörunum úr. Á Youtube má finna mörg skemmtileg innslög úr Inside The Actors Studio.

Anna María segir leikarann vera mjög jarðbundinn, auðmjúkan og fyndinn.

„Hann talaði við okkur í meira en þrjá tíma og það var alveg frábært og innspýting í metnaðinn manns og ástríðuna fyrir leiklistinni. Ég er í tvöföldu mastersnámi, bæði að læra að leika og leikstýra þannig hausinn snýst oft marga hringi og ég var nokkuð þreytt þennan dag en gekk út brosandi með byr undir báða vængi. Það er pínu gaman að hugsa, fyrst Bradley meikaði það, þá get ég það líka. Það er auðvitað fyndið að hugsa þannig en maður á aldrei að segja aldrei.“

Cooper er mikill fagmaður

Hún segir að það hafi verið gott að heyra hversu mikill fagmaður hann væri.

„Hann sagði að honum fyndist hann alltaf byrja á núlli fyrir hvert hlutverk og notaði öll tækin og tólin sem við erum að læra þegar hann væri í undirbúningsvinnu.  Hann tók  American Sniper sem dæmi um hvernig námið og verkfærakistan nýttist honum þar. Hann minnti okkur á að við hættum aldrei að læra og hann ráðfærði sig við leiktækni kennarann minn Elizabeth Kemp fyrir hvert hlutverk. Hann lagði mikla áherslu á að vera alltaf forvitin og glata ekki leikgleðinni því þetta væri svo ótrúlega fjölbreytt, skemmtileg og gefandi vinna. Það og leggja harðar að sér en allir hinir, láta hjartað ráða og heppni hefði verið lykillinn að velgengni sinni. Einnig sagðist hann minna sig á hverjum degi hvað hann væri heppinn að hafa náð svona langt og fengið góð og krefjandi hlutverk sem hafa bara gert hann að betri manneskju og listamann.“

Anna segir að Cooper hafi oft á tíðum efast um sjálfan sig eins og eðlilegt væri.

„Hann talaði einnig um að leikarar þurfi að þekkja og upplifa, að líða alls konar og oft hafa erfið tímabil gefið honum mikið seinna í karaktervinnu. Hann sagðist leggja áherslu á fyrir sjálfan sig að vera opinn fyrir innblæstri hvaðan svo sem hann kæmi. Og hann reyndi að bera sig ekki saman við aðra á neikvæðan hátt. Hann er flott fyrirmynd og þetta voru mjög ánægjulegir þrír tímar. Ég bíð bara spennt eftir því hver kemur næst.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×