Erlent

Íslamska ríkið hefur margoft kallað eftir árásum í Túnis

Samúel Karl Ólason skrifar
Öryggissveitir felldu tvo árásarmenn og leitað er að tveimur til þremur til viðbótar.
Öryggissveitir felldu tvo árásarmenn og leitað er að tveimur til þremur til viðbótar. Vísir/EPA
Aðilar tengdir Íslamska ríkinu hafa fagnað hryðjuverkaárásinni í Túnisborg á samfélagsmiðlum í dag. Undanfarna mánuði hafa ISIS birt fjölda skilaboða til stuðningsmanna sinna á samfélagsmiðlum eins og Twitter þar sem þeir hafa kallað eftir árásum þar í landi í þeirra nafni.

Minnst tuttugu féllu í árásinni og um 50 særðust, samkvæmt AP fréttaveitunni. Tveir vígamenn féllu í átökum við öryggissveitir, en forsætisráðherra Túni segir að leitað sé að tveimur til þremur til viðbótar.

Árásarmennirnir skutu á rútu fulla af ferðamönnum.Vísir/EPA
Þann 15. mars birti birtu ISIS myndband af vígamanni sem veitti Boko Haram ráð í baráttu þeirra. Þar að auki bað hann íslamista í Túnis um að fylgja í fótspor Boko Haram og ganga til liðs við ISIS.

Þetta kemur fram á vef samtakanna Site Intelligence, en þau fylgjast með öfgahópum og einstaklingum á samfélagsmiðlum.

Sama dag voru birt skilaboð sem áttu að vera frá vígahópnum Jund al-Khilafah í Túnis:

„Bíðið eftir þeim tíðindum sem munu færa ykkur og öllum múslimum gleði, fljótlega.“

Rita Katz, yfirmaður Site, segir að ekki sé víst að ISIS hafi staðið að baki árásinni, en stuðningsmenn þeirra hafa gefið það í skyn.

Vígamennirnir skutu á ferðamenn í morgun úr árásarrifflum, þar sem þau stigu úr rútum við safn í Túnisborg. Habib Essid, forsætisráðherra Túnis, segir að meðal hinna látnu séu tveir heimamenn. Öryggisvörður og ræstitæknir. Hinir sem féllu eru ferðamenn frá Ítalíu, Póllandi, Þýskalandi og Spáni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×