Íslenski boltinn

Víkingur og Leiknir með fullt hús stiga í Lengjubikarnum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stefán Þór Pálsson skoraði tvö mörk fyrir Víkinga.
Stefán Þór Pálsson skoraði tvö mörk fyrir Víkinga. vísir/pjetur
Víkingar fylgdu sigrinum á KR í 1. umferð Lengjubikarsins eftir með öruggum sigri á Selfossi í Egilshöllinni í dag. Lokatölur 3-1, Víkingi í vil.

Stefán Þór Pálsson kom Víkingi í 2-0 í fyrri hálfleik og Andri Rúnar Bjarnason bætti þriðja markinu við á 64. mínútu.

Andrew James Pew minnkaði muninn á 80. mínútu en níu mínútum síðar var Einar Ottó Antonsson rekinn af velli með rautt spjald.

Í sama riðli unnu Leiknismenn Gróttu með fjórum mörkum gegn tveimur í Egilshöllinni.

Fyrirliðinn Ólafur Hrannar Kristjánsson skoraði tvö mörk fyrir Leikni og þeir Atli Arnarson og Kristjánn Páll Jónsson sitt markið hvor.

Agnar Guðjónsson og Guðmundur Marteinn Hafsteinsson skoruðu mörk Gróttu sem eru nýliðar í 1. deild.

Seltirningar eru með eitt stig eftir fyrstu tvær umferðirnar á meðan Leiknismenn eru með fullt hús stiga.

Leiknismenn lögðu Gróttu.vísir/pjetur
Í riðli 1 gerðu Víkingur Ólafsvík og Þróttur 1-1 jafntefli en leikið var í Akraneshöllinni. Þetta var fyrsti leikur Ólsara í Lengjubikarnum í ár.

Aron Ýmir Pétursson kom Þrótti yfir á 47. mínútu en Eyþór Helgi Birgisson jafnaði metin tíu mínútum síðar.

Guðmundur Reynir Gunnarsson lék sinn fyrsta leik með Víkingi í dag en hann gekk nýverið til liðs við Ólsara frá KR.

Þróttarar eru með fjögur stig í riðli 1, líkt og Fylkir. HK situr á toppnum með sex stig.

Í riðli 3 vann Fjarðabyggð 3-1 sigur á Haukum en leikið var í Reykjaneshöllinni.

Alexander Aron Davorsson skoraði tvívegis fyrir Austfirðinga og Brynjar Jónasson skoraði þriðja markið úr vítaspyrnu á 63. mínútu.

Andri Fannar Freysson skoraði mark Hauka sem hafa tapað báðum leikjum sínum til þessa.

Fjarðabyggð er með þrjú stig eftir fyrstu tvær umferðirnar en Austfirðingar eru nýliðar í 1. deild.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×