Íslenski boltinn

Stelpurnar mega nú spila með strákum upp í þriðja flokk

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Blikakonur fagna sigri í bikarnum.
Blikakonur fagna sigri í bikarnum. Vísir/Daníel
Tillaga Knattspyrnudeildar Breiðabliks um að leyfa stúlkum að spila með drengjum í þriðja flokki var samþykkt á Ársþingi Knattspyrnusambands Íslands um helgina.

Margar af fremstu þjóðum Evrópu í kvennaknattspyrnu, til að mynda Holland og Sviss leyfa stúlkum að spila með drengjum, eins lengi og félögin sjálf vilja. Í Þýskalandi og Sviss mega stúlkur spila með drengjum sem eru einu til tveimur árum yngri.  Þetta kemur fram í tillögu Breiðabliks.

Breiðablik, sem hefur alið upp margar af bestu knattspyrnukonum þjóðarinnar, vill leyfa stelpunum að spila lengur með strákum en leyfilegt hefur verið hingað til. Það er algengt að kvennalið spili æfingaleiki við yngri strákalið en nú mega stelpurnar styrkja strákaliðin til sextán ára aldurs.

Fyrir þetta þing máttu stelpur aðeins taka þátt í keppni með liði karla í 4. aldursflokki og yngri en nú er orðin breyting á því. Félögum er hér eftir heimilt að leyfa konum að taka þátt í keppni með liði karla í 3. aldursflokki

"Með þessu gætu efnilegir leikmenn fengið krefjandi verkefni fram eftir aldri með jafnöldrum í stað þess að fara of hratt upp í fullorðinsumhverfi meistaraflokka. Þetta myndi jafnframt gagnast smærri félögum við að manna lið og gefa uppöldum stúlkum krefjandi verkefni ef kvennaflokkarnir eru fámennir," segir í rökstuðningi Blika með tillögunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×