Íslenski boltinn

Leiknir í úrslit eftir sigur á KR í vítaspyrnukeppni

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Leiknismenn unnu KR í úrslitum 2013 og nú aftur í undanúrslitum.
Leiknismenn unnu KR í úrslitum 2013 og nú aftur í undanúrslitum. vísir/daníel
Leiknir er kominn í úrslit Reykjavíkurmótsins eftir sigur á KR í vítaspyrnukeppni í seinni undanúrslitaleiknum í Egilshöllinni í kvöld.

Aron Bjarki Jósepsson kom KR yfir í leiknum, en Hilmar Árni Halldórsson jafnaði metin með glæsilegu marki beint úr aukaspyrnu. Staðan í hálfleik, 1-1.

Eftir fimm mínútur í seinni hálfleik kom Almarr Ormarsson KR aftur yfir, 2-1, þegar hann renndi boltanum framhjá Arnari Frey Ólafssyni sem stóð vaktina í marki Leiknis í stað aðalmarkvarðarins Eyjólfs Tómassonar

En Leiknismenn, sem unnu KR-inga í úrslitum Reykjavíkurmótsins fyrir tveimur árum, gáfust ekki upp og jöfnuðu metin.

Þegar tvær mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma gerðist Gonzalo Balbi brotlegur í teignum og dæmdi Garðar Örn Hinriksson vítaspyrnu þegar Fannar Þór Arnarsson féll í baráttu við Spánverjann.

Hilmar Árni Halldórsson skoraði úr spyrnunni en það var þó enginn afsláttur gefinn af því marki því Stefán Logi Magnússon var í boltanum. Lokatölur, 2-2, og var farið beint í vítaspyrnukeppni.

Leiknismenn skoruðu úr öllum fjórum vítaspyrnunum sem þeir tóku, en Arnar Freyr varði frá Atla Hrafni Andrasyni og þá skaut Guðmundur Andri Tryggvason (Guðmundssonar) boltanum í stöngina. Skjálfti í ungu strákunum sem báðir eru fæddir árið 1999.

Leiknir mætir Val í úrslitaleik á mánudagskvöldið klukkan 19.00 í Egilshöll, en Valsmenn lögðu Fjölni í fyrri undanúrslitaleiknum í kvöld, 1-0.

Þetta er í fyrsta skipti í sex ár sem KR spilar ekki til úrslita í Reykjavíkurmótinu, en það hefur tapað síðustu fjórum úrslitaleikjum og vann tvo aðra á undan því.

Gangur vítaspyrnukeppninnar:

1-0 Aron Bjarki Jósepsson skorar fyrir KR

1-1 Hilmar Árni Halldórsson skorar fyrir Leikni

2-1 Egill Jónsson skorar fyrir KR

2-2 Atli Arnarson skorar fyrir Leikni

2-2 Arnar Freyr Ólafsson ver frá Atla Hrafni Andrasyni

2-3 Halldór Kristinn Halldórsson skorar fyrir Leikni

2-3 Guðmundur Andri Tryggvason skýtur í stöngina fyrir KR

2-4 Kolbeinn Kárason skorar og tryggir Leikni sigurinn


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×