Íslenski boltinn

Rekstrarhagnaður KSÍ var 161 milljón króna

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Geir Þorsteinsson er formaður KSÍ.
Geir Þorsteinsson er formaður KSÍ. vísir/stefán
Rekstrarkostnaður Knattspyrnusambands Íslands á síðasta ári voru 910 milljónir króna, en hann lækkar um 18 milljónir á milli ára.

Þetta kemur fram í ársskýrslu KSÍ sem birt er á vef sambandsins í dag, en rekstartekjur KSÍ námu 1.067 milljónum króna og hækka vegna framlags frá FIFA og aukinna sjónvarpstekna.

Í heildina var rekstarhagnaður ársins 161 milljón en áætlanir gerðu ráð fyrir 136 milljóna króna hagnaði.

„Styrkir og framlög til aðildarfélaga á árinu námu 150 milljónum króna vegna sjónvarps- og markaðsréttinda, styrkja til barna- og unglingastarfs, leyfiskerfis og fleira og er í samræmi við það sem áætlanir gerðu ráð fyrir,“ segir í frétt á vef KSÍ.  

„Að teknu tilliti til styrkja og framlaga til aðildarfélaga er því hagnaður af rekstri KSÍ um 11 milljónir króna á árinu 2014.“

Fjárhags- og eignarstaða KSÍ er sögð traust við áramót og lausafjárstaða góð. „Handbært fé lækkar á milli ára og var í árslok 2014 um 211 milljónir króna. Eignir námu 639 milljónum króna. Eigið fé KSÍ var ríflega 211 milljónir króna í árslok,“ segir í frétt sambandsins.

Hér má skoða ársskýrsluna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×