Fróði Steingrímsson, lögmaður, segir að það sé ekki rétt hjá Jóni Þóri Ólafssyni, þingmanni Pírata, að Íslendingar geti keypt þjónustu Netflix á grundvelli reglna Evrópska efnahagssvæðisins (EES) um frjálsa vöru og þjónustu.
Í
viðtali við Vísi um málið síðastliðinn sunnudag vísaði Jón Þór í dóm Evrópudómstólsins sem úrskurðaði árið 2011 að einkaréttur til sjónvarpsútsendinga í ákveðnu landi gengi gegn grunnreglum ESB. Þess vegna væri löglegt fyrir Íslendinga að horfa á Netflix í gegnum Evrópulönd þar sem Netflix byði upp á þjónustu sína. Fróði segir þetta ekki rétt.
„Niðurstaða Evrópudómstólsins í máli breska barsins hefur verið oftúlkuð af mörgum, einmitt með sama hætti og Jón Þór gerir. Með dómnum var fyrst og fremst talið að bresk löggjöf sem bannaði innflutning á afruglurum frá Grikklandi, á grundvelli verndar höfundarréttinda, bryti gegn grunnreglu ESB um frjálst flæði vöru og þjónustu milli aðildarríkja,“ segir Fróði og bætir við að ekki sé hægt að bera saman beina útsendingu frá fótboltaleik og bíómyndir og sjónvarpsþætti í skilningi höfundaréttarins.
„Evrópudómstóllinn byggði á því að fótboltaleikir sem slíkir uppfylla ekki skilyrði höfundarréttarins til að teljast verk. Hins vegar taldi dómstóllinn að allir aðrir þættir útsendingar frá slíkum viðburði, til dæmis öll lógó, innslög, tónlistarstef og þess háttar, væri háð höfundarrétti. Þetta er auðvitað það sem bindur útsendingar saman eins og fótboltaleikir eru sendir út í dag.“
Fróði segir að það sé sérstaklega tekið fram í niðurstöðu dómsins að það sé heimilt samkvæmt ESB að takmarka verk við tiltekið aðildarríki og sú heimild sé viðurkennd innan höfundarréttarins, bæði í löggjöf ESB og íslenskri löggjöf. Takmörkun Netflix innan Evrópu á dreifingu efnis er því lögleg samkvæmt reglum ESB og hefur verið það lengi, að sögn Fróða.
„Það gilda einfaldlega aðrar reglur um rafræna dreifingu á verkum sem varin eru höfundarrétti heldur en dreifingu og sölu á fýsískum eintökum. Það er grundvallaratriði og það sem skiptir mestu máli þegar verið er að tala um Netflix, og önnur slík fyrirtæki, í þessu samhengi.“