

Hvar eru karlarnir?
Þrátt fyrir jafnréttisbaráttu sem staðið hefur um áratugaskeið eigum við enn langt í land með að ná jafnrétti kynjanna og uppræta kyndbundið ofbeldi. Nýbirt úttekt World Economic Forum á jafnrétti kynjanna sýnir að umtalsverðum árangri hefur verið náð en niðurstöðurnar benda þó til þess að við eigum enn nokkuð í land. Á þetta bæði við um Ísland og Súrínam, eða í raun sérhvert land sem litið er til. Jafnréttisbaráttan snýst nefnilega um fleira en stefnumið, lagasetningu og reglugerðir. Baráttan fyrir jafnrétti kallar á breytingar á atferli og breytt hugarfar, ekki síst er kemur að neikvæðum staðalímyndum um bæði konur og karla. Hvernig getum við stuðlað að varanlegu jafnrétti kynjanna á meðan hugmyndum um kyn og valdahlutföll er viðhaldið, kynslóð fram af kynslóð?
Það er alltof útbreitt viðhorf að jafnréttismálin séu kvennamál sem rædd séu af konum, fyrir konur. Hugmyndir okkar um ólík hlutverk kynjanna koma þannig í veg fyrir að karlar taki þátt í þessari umræðu með virkum hætti og fela í sér að það sé í raun ekki hlutverk karla að taka þátt í þessari umræðu, hvað þá heldur að vera hluti af lausninni. Fyrir fjölmarga karla eru þetta óþægileg mál sem auðveldara er að forðast.
Fyrir réttum tíu árum ávarpaði frú Vigdís Finnbogadóttir norrænt hátíðarmálþing um jafnréttismál í Borgarleikhúsinu að viðstöddum fjölda gesta. Í ávarpi Vigdísar var spurt: „Af hverju eru konur ávallt sendar á fundi þar sem ræða á stöðu kvenna í samfélaginu?“ Spurningin „hvar eru karlarnir“ lá í loftinu þegar Vigdís varpaði fram hugmyndinni um heimsráðstefnu um stöðu kvenna, þar sem aðeins karlar tækju þátt. Orð Vigdísar náðu að fanga staðreynd sem birst hefur á óteljandi alþjóðlegum ráðstefnum og í fundarsölum um gervallan heim undanfarna áratugi. Þessu verður að breyta. Jafnrétti kynjanna er málefni sem tilheyrir okkur öllum; mér, þér, honum og henni.
Fyrr í haust steig leikkonan Emma Watson, sérstakur sendiboði Sameinuðu þjóðanna, fram og ræddi hlutverk karla í jafnréttisbaráttunni og bauð körlum formlega til þátttöku í jafnréttisumræðunni. Við höfum þekkst þetta boð. Í janúar á næsta ári munu Ísland og Súrínam standa að svokallaðri rakarastofuráðstefnu á vettvangi Sameinuðu þjóðanna í New York með það að markmiði að virkja karla og drengi í baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna og gegn kynbundnu ofbeldi. Við erum ekki þeir fyrstu til að upphugsa slíkt. En við erum hins vegar sannfærðir um að það er mál að linni, nú er tíminn til að færa þessa brýnu umræðu ofar á dagskrána á æðsta vettvangi alþjóðasamskipta. Rakarastofuráðstefnan er eitt skref í þá átt.
Með sama hætti og í #HeforShe-átakinu þá höfum við sett okkur það markmið að taka þátt í jafnréttisumræðunni á þeirri forsendu að hér sé ekki um kvennamálefni að ræða heldur réttindamál sem snertir okkur öll og kallar á þátttöku allra. Rakarastofuráðstefnan er framlag okkar til jafnréttisbaráttunnar og til að stöðva hvers kyns ofbeldi og mismunun sem konur og stúlkur verða fyrir dag hvern um allan heim.
Hvergi í heiminum hefur náðst að rétta fullkomlega af þann halla sem ríkir milli karla og kvenna, þótt framþróun hafi átt sér stað. Ísland heldur áfram fyrsta sætinu í jafnréttisrannsókn World Economic Forum og á hinum endanum er Súrinam sem hefur tekið að sér forystuhlutverk í jafnréttismálum í Mið- og Suður-Ameríku. Rakarastofuráðstefnan er þannig skýrt dæmi um hvernig tvær smáar þjóðir, sitt hvorum megin á hnettinum, geta lagst á árar og reynt að stuðla að jákvæðum breytingum. Með samhæfðu átaki er unnt að ná árangri. En öll þurfum við að leggja okkar af mörkum til að þoka málinu áfram.
Sem utanríkisráðherrar þessara tveggja þjóða heitum við á þjóðarleiðtoga, þjóðkjörna fulltrúa, athafnamenn og almenning að taka virkan þátt í þessari umræðu og leggjast þannig á sveif með jafnrétti kynjanna. Takið þátt! Hvernig sem þið leggið málinu lið, hvort sem það er með því vekja athygli á alþjóðlegum degi SÞ gegn kynbundnu ofbeldi eða taka þátt í orðræðu í anda rakarastofuráðstefunnar, þá hvetjum við alla til þátttöku.
Ertu með?
Skoðun

Ólöglegir ópíóðar: Skaðaminnkandi þjónusta bráðnauðsynleg
Ósk Sigurðardóttir skrifar

Hlustum á náttúruna
Svandís Svavarsdóttir skrifar

Skattheimta sem markmið í sjálfu sér
Guðrún Hafsteinsdóttir skrifar

Tæknin hjálpar lesblindum
Guðmundur S. Johnsen skrifar

Tryggja þarf aðkomu sjómanna að fiskveiðiráðgjöfinni
Sigurjón Þórðarson skrifar

Opið bréf til Friðriks Þórs
Steven Meyers,Guðrún Elsa Bragadóttir,Ása Helga Hjörleifsdóttir,Brúsi Ólason,Erlendur Sveinsson,Heather Millard skrifar

Skjólveggur af körlum og ungum mönnum
Ólafur Elínarson skrifar

Menntamál eru ekki afgangsstærð
Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir skrifar

‘Vók’ er djók
Alexandra Briem skrifar

Er friður tálsýn eða verkefni?
Inga Daníelsdóttir skrifar

Kattahald
Jökull Jörgensen skrifar

Framtíðin er rafmögnuð
Jóhanna Hlín Auðunsdóttir skrifar

Ekki biðja um undanþágur heldur krefjast réttar samkvæmt EES-samningnum
Erna Bjarnadóttir skrifar

Þjóðarmorðið í blokkinni
Bjarni Þór Sigurbjörnsson skrifar

Breiðholtið er frábært! Gerum betur í umfjöllun og orðræðu
Kristín Dögg Kristinsdóttir skrifar

Ég hataði rafíþróttir!
Þorvaldur Daníelsson skrifar

Því miður hefur lítið breyst
Áslaug Hulda Jónsdóttir skrifar

Versta sem Ísland gæti gert
Hjörtur J. Guðmundsson skrifar

Eru græn svæði í útrýmingarhættu í Reykjavík?
Sigrún Ásta Einarsdóttir skrifar

Efla á forvarnir og setja börn í öndvegi með 5,7 milljarða niðurskurði
Grímur Atlason skrifar

„...ég lærði líka að nota gagnrýna hugsun“
Hanna Björg Vilhjálmsdóttir skrifar

Risastór niðurskurður ríkistjórnarinnar er áfall fyrir foreldra og börn í landinu
Sigurður Sigurðsson skrifar

Látið okkur í friði
Vilhjálmur Árnason skrifar

Gefðu fimmu!
Ágúst Arnar Þráinsson skrifar

Allar hendur á dekk!
Oddný G. Harðardóttir skrifar

Engin sátt án sannmælis
Kristinn Karl Brynjarsson skrifar

Að finna rétt veiðigjald...
Bolli Héðinsson skrifar

Hvað viltu að samskiptin á vinnustaðnum kosti?
Carmen Maja Valencia skrifar

Stórt inngrip í rekstur íþróttafélaga!
Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir skrifar

Börn voga sér inn í afbrotaheim fullorðinna eða er það öfugt?
Davíð Bergmann skrifar