Alls staðar í heiminum er fólk minnugt þess að þegar gaus í Eyjafjallajökli árið 2010 olli það gríðarlega umfangsmikilli röskun á flugi. Sky-fréttastofan segir að 100 þúsund flugferðum hafi verið aflýst. Frá þeim tíma hafi reglum um flug verið breytt þannig að eldgos í dag myndi tæpast valda eins mikilli ringulreið og fyrir fjórum árum. Engu að síður fylgjast flugmálayfirvöld víða um heim vel með gangi mála.

Ummæli Friðþórs eru í samræmi við skilaboð frá Nicholas Wyke, talsmanni hjá flugmálastjórn Evrópu, eða Eurocontrol. Hann sagði í tölvupósti til Associated Press-fréttastofunnar að það væri erfitt að meta hve margar flugvélar færu alla jafna yfir þetta svæði, því flugvélar breyttu gjarnan flugleiðum sínum eftir veðurskilyrðum. „Það er ólíklegt að þetta hættusvæði muni hafa einhver veruleg áhrif á flugumferð yfir Atlantshafið,“ sagði Wyke á laugardagskvöld.
Bryndís Hagan Torfadóttir, framkvæmdastjóri Scandinavian Airlines á Íslandi, segir enga röskun hafa orðið á flugi félagsins vegna gossins. „Það hefur ekkert verið, en ég bara sendi þeim allar upplýsingar sem birtast,“ segir hún. Hún bætir því við að nú sé bara að bíða og sjá hvað verði í framhaldinu.
Þó eru dæmi um flugfélög sem gerðu verulegar breytingar. Fréttavefurinn Vísir greindi frá því í gær að hópur Íslendinga hefði ekki komist til Íslands frá Þýskalandi. Ástæðan var sú að flugfélagið Air Berlin felldi niður flug vegna frétta af eldgosi. Á vef fréttastofu ITV segir líka að vél á vegum Virgin Atlantic hafi sveigt af leið eftir að upplýsingarnar bárust.