Skoðun

Fólk virðir staðfestu Sveinbjargar

Ingibjörg Kolbeins Sigurðardóttir skrifar
Fyrir nokkrum vikum þekktu fáir Sveinbjörgu Birnu Sveinbjörnsdóttur. Í dag þekkja hins vegar flestir Sveinbjörgu, oddvita Framsóknar og flugvallarvina í Reykjavík. Hún vill leyfa borgarbúum að greiða atkvæði um hvort úthluta skuli lóð undir mosku í Sogamýri. Að eigin sögn er hún með sólópróf í flugi sem mun án efa nýtast henni vel núna þegar hún kemur inn til lendingar í Reykjavík næstkomandi laugardag.

Sveinbjörg mun hljóta atkvæði þeirra sem vilja flugvöllinn áfram í Vatnsmýrinni. Þá mun hún án efa hljóta atkvæði þeirra sem vilja meira íbúalýðræði, þeirra sem hafa fram til þessa verið óákveðnir og þeirra sem aðhyllast kristna trú.

Fólk virðir staðfestu Sveinbjargar því það vill stjórnmálamenn sem hafa bein í nefinu. Af þeim sökum fer sá hópur stækkandi sem vill framgang Sveinbjargar sem mestan. Sveinbjörg sýnir sjálfstæði í sínum eigin flokki auk þess sem hún þorir að taka á hinum stjórnmálalega rétttrúnaði. Í dag eru slíkir eiginleikar sjaldgæfir á meðal stjórnmálamanna og eftir þeim er tekið. Líklegt er að óákveðið fylgi muni flykkjast um hana enda hefur fram til þessa verið ládeyða yfir kosningabaráttunni.

Það sem Sveinbjörgu hefur nú tekist, er að laða til sín kjósendur úr öllum áttum og ljóst að margir þeirra hafa ekki áður greitt flokknum atkvæði sitt. Á vissan hátt má gera því skóna að þessir kjósendur líti svo á að þeir séu að greiða atkvæði um landsmál í sveitarstjórnarkosningum. Á það hefur verið bent að keimlík undiralda hafi skollið á Sviss þar sem almenningur krafðist þjóðaratkvæðagreiðslu eftir að þarlendir stjórnmálamenn höfðu ítrekað komið í veg fyrir atkvæðagreiðslur á sveitarstjórnarstigi. Fylgi Framsóknar og flugvallarvina vex nú ört og ljóst að Sveinbjörg var rétti oddvitinn fyrir flokkinn í Reykjavík.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×