Íslenski boltinn

Páll: Kæmi mikið á óvart ef við myndum spila ellefu leiki í Egilshöllinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Páll Kristjánsson, annar af þjálfurum KV-liðsins.
Páll Kristjánsson, annar af þjálfurum KV-liðsins. Vísir/Daníel
Knattspyrnufélag Vesturbæjar fékk í gær þátttökuleyfi í 1. deild karla í sumar en óvissa var um hvort félagið uppfyllti kröfur leyfiskerfis KSÍ eins og um unglingastarf og heimavöll. „Þetta er vægast satt mikill léttir. Nú get ég farið að eyða púðrinu að vinna í liðinu,“ sagði Páll Kristjánsson, annar af þjálfurum KV-liðsins, í samtali við Fréttablaðið í gær.

KR og KV senda meðal annars sameiginlegt lið til leiks í 2. flokki og Egilshöllin er nú heimavöllur liðsins. „Það kæmi mér mikið á óvart ef við myndum enda á því að spila 11 leiki í Egilshöllinni í sumar því við ætlum að leita annarra leiða,“ sagði Páll.

„Ég taldi okkur vera búna að uppfylla öll skilyrði hvað varðar okkar heimavöll (gervigrasið úti í KR). Ég þarf því að sjá hvað við þurfum að gera til að gera hann löglegan en við eigum góða nágranna. Kannski fáum við að spila einhverja leiki á KR-vellinum sem væri óskandi. Það verða aldrei 11 leikir og þá er gott að hafa Egilshöllina sem bakland,“ sagði Páll.

„Ég var sjálfsögðu orðinn stressaður þegar við fengum að vita það klukkan tvö í dag (gær) að heimavöllurinn væri ólöglegur og við þyrftum að leita allra leiða til að finna annan völl á svona skömmum tíma,“ sagði Páll.

„Það verður síðan bara annar hausverkur að ári að takast á við leyfiskerfið á næsta ári,“ sagði Páll sem horfir ekki bara á það að halda sæti sínu í 1. deildinni í sumar. „Mér skilst að það sé enn þá strangari kröfur í úrvalsdeild og það verður því enn þá meiri hausverkur,“ sagði Páll í léttum tón að lokum.


Tengdar fréttir

Reglunum verður ekki breytt fyrir KV

Þórir Hákonarson, framkvæmdastjóri KSÍ, ræddi málefni KV í kvöldfréttum Stöðvar tvö en enn er mikil óvissa um hvort Knattspyrnufélag Vesturbæjar fái hreinlega þátttökuleyfi í 1. deild karla í fótbolta í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×