Handbolti

Akureyringar safna ekki stigunum fyrir sunnan

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ragnar Jóhannsson var markahæstur hjá FH.
Ragnar Jóhannsson var markahæstur hjá FH. Vísir/Vilhelm
FH vann í kvöld þriggja marka sigur á Akureyri, 26-23,  í sextándu umferð Olís-deildar karla í handbolta en þetta var síðasti leikur liðanna fyrir jóla- og HM-frí.

Ragnar Jóhannsson var markahæstur hjá FH með sjö mörk og Ágúst Elí Björgvinsson varði vel í markinu þar á meðal tvö vítaköst Norðanmanna.

Sigþór Heimisson skoraði níu mörk fyrir Akureyrarliðið, öll utan af velli, en það var ekki nóg.

Akureyringar komust mest fimm mörkum yfir í fyrri hálfleiknum en FH-ingar náðu að minnka muninn niður í eitt mark, 13-12, fyrir hálfleik. FH-ingar skoruðu síðan sex af fyrstu átta mörkum seinni hálfleiksins og lönduðu að lokum þriggja marka sigri.

FH-ingar styrktu stöðu sína í fjórða sæti deildarinnar með þessum sigri en þetta var fjórði sigur FH-liðsins í síðustu fimm leikjum FH í Kaplakrika.

Akureyringar hafa verið að gera góða hluti á heimavelli síðan Atli Hilmarsson tók við en lítið sem ekkert gengur á útivelli.

Akureyrarliðið hefur aðeins náð í eitt stig af tíu mögulegum í síðustu fimm heimasóknum sínum suður og stig kom í jafntefli á móti Stjörnunni í Mýrinni.



FH - Akureyri 26-23 (12-13)

Mörk FH: Ragnar Jóhannsson 7, Magnús Óli Magnússon 5, Andri Berg Haraldsson 5, Benedikt Reynir Kristinsson 3, Ísak Rafnsson 2, Andri Hrafn Hallsson 2, Daníel Matthíasson 1, Hynur Bjarnason 1.

Vítanýting: 2/2, 100 prósent

Mörk Akureyrar: Sigþór Heimisson 9, Kristján Orri Jóhannsson 6, Heimir Örn Árnason 3, Elías Már Halldórsson 1, Bergvin Þór Gíslason 1, Jón Heiðar Sigurðsson 1, Þrándur Gíslason 1, Halldór Logi Árnason 1.

Vítanýting: 6/3, 50 prósent

Brottvísanir: FH 4 mínútur, Akureyri 2 mínútur




Fleiri fréttir

Sjá meira


×