Handbolti

Umfjöllun og viðtöl: FH - Afturelding 23-24 | Annar sigur Aftureldingar á FH á tímabilinu

Ingvi Þór Sæmundsson í Kaplakrika skrifar
Ásbjörn Friðriksson, leikstjórnandi FH.
Ásbjörn Friðriksson, leikstjórnandi FH. vísir/stefán
Afturelding vann mikilvægan eins marks sigur, 23-24, á FH í 14. umferð Olís-deildar karla í handbolta í kvöld.

Þetta var í fyrsta sinn sem Einar Andri Einarsson mætti í Kaplakrika sem þjálfari annars liðs en FH, en hann þjálfaði hjá Fimleikafélaginu um margra ára skeið og undir stjórn hans og Kristjáns Arasonar varð FH Íslandsmeistari 2011.

Leikurinn í kvöld var lengst af jafn og spennandi en góður kafli í byrjun seinni hálfleiks gerði gæfumuninn fyrir Mosfellinga í kvöld.

Afturelding byrjaði ögn betur, en í stöðunni 5-7 skoraði FH þrjú mörk í röð og komust yfir, 8-7. Þá var röðin komin að gestunum sem skoruðu þrjú mörk í röð og komust tveimur mörkum yfir, 8-10.

Staðan í leikhléi var 13-14, Aftureldingu í vil.

Jóhann Jóhannsson byrjaði á bekknum en kom virkilega sterkur inn og var markahæstur allra á vellinum í leikhléi með fimm mörk, en hann skoraði þrjú síðustu mörk Mosfellinga í fyrri hálfleik.

Pálmar Pétursson var sömuleiðis flottur í markinu, en hann varði 48% þeirra skota sem hann fékk á sig í fyrri hálfleik. Brynjar Darri Baldursson hóf leik í marki FH og byrjaði vel, en það dró af honum eftir því sem leið á fyrri hálfleikinn.

Í sóknarleik FH bar mest á Magnúsi Óla Magnússyni sem skoraði fjögur mörk í fyrri hálfleik. Daníel Matthíasson skoraði þrjú mörk af línunni og kláraði færin sín vel.

Athyglisverður leikmaður Daníel, hvorki stór né þrekinn og í raun frekar vaxinn eins og hornamaður, fremur en línumaður. En hann er drjúgur og nýtir færin sín allajafna mjög vel.

Afturelding byrjaði seinni hálfleikinn betur og náði í tvígang þriggja marka forskoti. Í stöðunni 15-18 kom svo góður kafli hjá FH sem skoraði þrjú mörk í röð og jafnaði metin, 18-18.

Ágúst Elí Björgvinsson kom í markið á þessum tíma og hann átti frábæra innkomu og varði helming þeirra skota sem hann fékk á sig í seinni hálfleiknum.

En Einar Andri átti líka ás uppi í erminni. Um miðjan seinni hálfleik kom leikstjórnandinn Örn Ingi Bjarkason inn á í fyrsta sinn í leiknum og hans framlag skipti sköpum þegar uppi var staðið.

Örn byrjaði á því að skora og fiskaði í leiðinni Andra Berg Haraldsson út af í þriðja sinn í leiknum. Hann átti svo línusendingu sem gaf mark og skoraði svo sjálfur og kom Aftureldingu þremur mörkum yfir, 20-23, þegar ellefu mínútur voru eftir.

FH-ingar gáfust hins vegar ekki upp og náðu að minnka muninn í eitt mark, 23-24. Og þeir fengu nokkur tækifæri til að jafna metin, en vörn Aftureldingar hélt vatni og vindum undir lokin og fyrir aftan hana var Pálmar magnaður.

Hann kórónaði frábæran leik sinn með því að verja lokaskot leiksins, frá Benedikt Reyni Kristinssyni, en það var 24. skotið sem Pálmar varði í leiknum.

Lokatölur 23-24, Aftureldingu í vil, en liðið er áfram í 2. sæti, nú með 20 stig. FH er með fjórum stigum minna í 4. sæti.

Magnús Óli var markahæstur í liði FH með sex mörk, en miklu munaði að hvorki Ásbjörn Friðriksson né Ragnar Jóhannsson náðu sér á strik í kvöld.

Jóhann var atkvæðamestur í liði Aftureldingar með sjö mörk, en nafni hans Gunnar Einarsson kom næstur með fjögur, líkt og Árni Bragi Eyjólfsson.

Halldór: Erum í smá lægð

Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari FH, sagði slæmar ákvarðanir hafa orðið sínu liði að falli gegn FH í kvöld.

"Þeir voru bara skrefi á undan, fannst mér. Við vorum að elta þá, sérstaklega í seinni hálfleik, og tókum slæmar ákvarðanir á þeim tímapunktum sem við þurftum mörk eða góða vörn.

"Það var gangur leiksins hjá okkur," sagði Halldór en FH-ingar áttu, þrátt fyrir að vera undir bróðurpart leiksins, möguleika að jafna metin í lokasókninni.

"Við áttum möguleika á að jafna, en þá tókum við ekki rétta ákvörðun.

"Það vantaði sjálfstraust í okkur í dag og mér finnst við vera í smá lægð núna og við þurfum að vinna okkur út úr því. Það er enginn annar sem gerir það fyrir okkur," sagði Halldór, en hvað þarf FH að gera til að vinna sig upp úr þessum öldudal?

"Það þarf að skoða það. Menn þurfa að leggja harðar að sér og við þjálfararnir þurfum að finna hvað það er sem er að.

"Það lenda öll lið í lægð og það er bara spurning um að leggja meira á sig og vinna sig út úr því í sameiningu," sagði Halldór að lokum.

Einar Andri: Það þurfa allir að vera klárir

Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar, var að vonum sáttur með eins marks sigur á sínum gömlu félögum í FH í Kaplakrika í kvöld.

"Ég er mjög ánægður með liðið í dag. Mér fannst við spila þannig að við ættum sigurinn skilið, þótt þetta hafi verið jafnt og staðið tæpt í lokin.

"Mér fannst við hafa sterkari tök á leiknum í seinni hálfleikinn, þótt leikurinn hafi orðið spennandi undir lokin," sagði Einar og bætti við:

"Vörn small í byrjun seinni hálfleiks. Það kom taktur í vörnina í fyrsta skipti í nokkra leiki og við vorum á tánum og á fullu."

Afturelding hefur á mjög breiðum hópi að skipa og Einar er duglegur að hreyfa liðið.

"Við höfum talað um það síðan í sumar að við séum með breiðan hóp, tvo leikmenn í hverri stöðu og það þurfa allir að vera klárir.

"Það voru tveir sem spiluðu ekkert í dag sem fá tækifæri í næsta leik og þeir verða bara að vera klárir, þá" sagði Einar sem voru þökkuð góð störf fyrir FH fyrir leikinn. Þjálfarinn fékk m.a. innpakkaða gjöf sem hann sagðist ekki vera búinn að opna.

"Ég er ekki búinn að opna pakkann. Það bíður þangað til í kvöld," sagði Einar léttur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×