Íslenski boltinn

Guðmundur hættir hjá KR

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðmundur með Stefání Loga Magnússyni.
Guðmundur með Stefání Loga Magnússyni. Vísir/Valli
Guðmundur Hreiðarsson verður að öllum líkindum ekki áfram markvarðaþjálfari KR en það staðfestir hann í samtali við mbl.is í dag.

„Það eru 99% líkur á að ég verði ekki áfram í KR. Það eru engin illindi á bakvið það. Þetta er bara niðurstaðan,“ sagði Guðmundur sem hefur einnig verið í þjálfarateymi íslenska landsliðsins. Hann segist ætla nú að einbeita sér að því verkefni en útilokar ekki að koma til starfa hjá öðru félagi í Pepsi-deild karla.

Skipt var um þjálfara hjá KR í haust. Bjarni Guðjónsson var ráðinn og Guðmundur Benediktsson gerðist aðstoðarþjálfari hans. Ekki var þá ljóst hver tæki við markvarðaþjálfun en Henryk Bödker, sem hefur lengi starfað hjá Stjörnunni, hefur verið orðaður við starfið.

Guðmundur segir að Bjarni hafi óskað eftir því að hitta hann að máli en þá hafði Guðmundur tekið þá ákvörðun að hann vildi hætta. „Markmannsþjálfun skiptir mjög miklu máli og markmannsþjálfari er hluti af þjálfarateyminu. Ef maður skynjar að maður sé ekki hluti af teyminu þá er kannski ágætt að gera eitthvað annað.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×