Það heitir Loðnuvinnslan hf., gerir út tvö stærðar fiskiskip, Hoffell og Ljósafell, er með sterka kvótastöðu og fjölþætta fiskvinnslu í landi. Veltan nemur yfir fimm milljörðum króna á ári, í byggð sem aðeins telur um 700 íbúa.
Gamli Alþýðubandalagsoddvitinn Þorsteinn Bjarnason þakkar þetta fyrrverandi kaupfélagsstjóra og eignarhaldi í anda samvinnuhreyfingarinnar.
„Það er allt saman framsóknarmönnum að þakka,“ segir Þorsteinn og hlær.
„Við áttum hérna alveg frábæran kaupfélagsstjóra sem Gísli Jónatansson heitir. Hann hugsaði bara um staðinn og fyrirtækið sitt en ekki endilega að komast í púkk með Samherja eða einhverjum sem tæki svo kvótann og færi með hann til Akureyrar. Það er okkar lán. Það var aldrei farið í svoleiðis púkk.
Það gerðu þeir á Stöðvarfirði og Breiðdalsvík og öllum þessum stöðum, - Reyðarfirði. Samherji hirti þetta allt saman og fór með þetta allt í burtu. Það var þeirra ólán. En við sluppum. Og við viljum þakka það framsóknarmönnum og Gísla Jónatanssyni,“ sagði gamli allaballinn, sem reyndar viðurkenndi í þættinum „Um land allt“ að hafa síðar kosið sjálfstæðismenn í þakklætisskyni fyrir þátt Arnbjargar Sveinsdóttur og Egils á Seljavöllum í að Fáskrúðsfjarðargöng voru grafin.

Fyrirtækið er 83 prósent í eigu Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga. „Kaupfélagið er sem sagt í eigu bæjarbúa. Það eru 250 manns bara hér í bænum sem eiga Kaupfélagið og eru Kaupfélagið,“ sagði Berglind.
Arðurinn fer til að efla fyrirtækið, í kvótakaup en einnig til að styrkja margþætta innviði samfélagsins, eins og elliheimilið, æskulýðsstarf og endurgerð gamalla húsa.
„Það er enginn einn sem stendur uppi ríkur og feitur eftir góða síldarvertíð hér. Það er bara samfélagið sem græðir,“ sagði Berglind.
Fjallað var um Fáskrúðsfjörð í þættinum „Um land allt“ á Stöð 2 í kvöld.
