Innlent

Töluverð mengun víðsvegar um landið

Stefán Árni Pálsson skrifar
Vænta má gasmengunar á höfuðborgarsvæðinu í dag.
Vænta má gasmengunar á höfuðborgarsvæðinu í dag. Vísir/Egill
Enn eru há gildi brennisteinsdíoxíðs að mælast á norðanverðu Snæfellsnesi. Alls voru 3700 míkrógrömm mæld með færanlegum handheldum mæli í Ólafsvík nú eftir hádegið.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Almannavarnardeild Ríkislögreglustjóra.

Þessar mælingar eru í samræmi við spá Veðurstofu Íslands sem spáði gasmengun á Norðvesturlandi í dag.

Mengunin sem mældist í morgun í Skagafirði er nú gengin niður, en mengunin á Akureyri er enn að mælast 3000 – 4000 míkrógrömm nú í eftirmiðdaginn. Þá fór mengun á Hvammstanga í 2400 míkrógrömm seinni hluta dagsins.

Í dag hafa SMS viðvörunarskilaboð um viðbrögð við mengun verið send í farsímanúmer víða á landinu m.a. Akureyri, Skagafjörð, Hvammstanga, Stykkishólm, Ólafsvík, Grundarfjörð. Í tilkynningunni kemur fram að eitthvað hafi verið um að boðin kæmust ekki til skila.

Þar segir að SMS viðvörunarboðin um viðbrögð séu viðbót við almenna fjölmiðlatilkynningar og ekki hægt að treysta eingöngu.

Verði mengun yfir 2000 míkrógrömm á höfuðborgarsvæðinu verða send skilaboð til almennings í gegnum fjölmiðla og með fréttatilkynningum en ekki með SMS, þar sem kerfið mun ekki geta annað álagi sem því fylgdi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×