Handbolti

Sverre: Runnum á rassinn í síðasta leik

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sverre í baráttunni.
Sverre í baráttunni. Vísir/Stefán
Sverre Jakobsson, annar þjálfara og leikmaður Akureyrar, var ánægður með varnarleik Norðanmanna í leiknum gegn Fram í dag.

„Varnarleikurinn var góður lengst af í leiknum. Við náðum að loka á nokkur göt í seinni hálfleik. Stefán Baldvin komst þrisvar auðveldlega í gegn í fyrri hálfleik, en við stoppuðum það í seinni hálfleik,“ sagði Sverre sem sagði að stemmningin í liði Akureyrar hefði verið betri í seinni hálfleik.

„Við náðum nokkrum hraðaupphlaupum, nokkrum auðveldum mörkum og svo náðum við að byggja upp stemmningu í liðinu. Og það skilaði sér.

„Við vorum aðeins of yfirspenntir í fyrri hálfleik. Við vorum búnir að tapa tveimur leikjum í röð, og það á heimavelli, og við lögðum mikla pressu á okkur fyrir þennan leik. Menn þurftu tíma til að finna sig og við náðum hrollinum úr okkur fyrir seinni hálfleikinn,“ sagði Sverre sem var þó óánægður með hvernig Akureyri spilaði þegar liðið var í yfirtölu.

„Það var eina sem ég var ósáttur með. Við sýndum smá veikleika þar. Við nýttum yfirtöluna í sókninni ekki eins og við vildum, en ég er heilt yfir stoltur af frammistöðu liðsins í dag.“

Stemmningin í liði Akureyrar virðist mjög góð, en leikmenn liðsins fögnuðu hverju stoppi í vörninni eins og þeir væru að fagna heimsmeistaratitli. Sverre segir þennan góða anda í liðinu mikilvægan.

„Við runnum á rassinn í síðasta leik (gegn ÍBV). Þá var engin stemmning og vont andrúmsloft, verð ég bara að segja. Við töpuðum kannski okkar karaktereinkennum og það á heimavelli. En við ræddum þetta og hver einasti kjaftur vildi bæta fyrir Eyjaleikinn og þegar maður leggur svona mikið á sig, uppsker maður oft í samræmi við það,“ sagði Sverre að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×