Innlent

Ísfirðingum ráðlagt að halda sig innandyra í gærkvöldi

Gissur Sigurðsson skrifar
Vísir/Egill Aðalsteinsson
Almannavarnir ríkislögreglustjóra sendu Ísfirðingum og að líkindum fleiri Vestfirðingum SMS skeyti um klukkan ellefu í gærkvöldi þar sem varað var við háu mengunargildi frá eldgosinu í Holuhrauni og var fólki bent á að halda sig innandyra, loka öllum gluggum og hækka hita á öllum ofnum.

Þá mældist mengunin tvö þúsund míkrógrömm í rúmmetra á mæli við lögreglustöðina, en við 600 grömm á fólk að fara að hafa varann á.

Þetta kom Ísfirðingum í opna skjöldu þar sem þeir eru umþaðbil eins langt frá gosinu og hægt er, innan landsteinanna og þeir hafa hingað til nær alveg sloppið við gasmengun.

Klukkan sex í morgun var mengunargildið þar komið niður í 600. Spáð er austlægri átt í dag og að gasmengun leggi til vesturs og verði hennar vart frá sunnanverðum Vestjförðum og suður um til Reykjaness og útlit er fyrir að mengunarsvæðið verði álíka á morgun.

Heldur minni skjálftavirkni virðist hafa verið við gosstöðvarnar í nótt en undanfarnar nætur, en ekkert lát er þó á gosinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×