Handbolti

Umfjöllun, viðtöl og myndir: Fram - Afturelding 22-27 | Afturelding enn með fullt hús stiga

Guðmundur Marinó Ingvarsson í Safamýrinni skrifar
Vísir/Andir Marinó
Afturelding lagði Fram 27-22 í Olísdeild karla í handbolta í kvöld í Safamýrinni. Afturelding var yfir allan leikinn en staðan í hálfleik var 13-12.

Afturelding kom til leiks með mikið sjálfstraust og það var augljóst á leik liðsins í upphafi leiks. Liðið varðist fimlega og áður en heimamenn vissu sitt rjúkandi ráð var Afturelding búin að skora sex af sjö fyrstu mörkum leiksins.

Heimamenn voru þó ekki mættir til leiks til að láta fara illa með sig og með mikilli baráttu náði liðið hægt en örugglega að vinna sig inn í leikinn en liðið náði þó aldrei að jafna fyrir leikhlé en staðan í hálfleik var 13-12 gestunum úr Mosfellsbæ í vil.

Afturelding náði aftur að auka forskot sitt í upphafi seinni hálfleiks og lagði í raun grunninn að sigrinum því Fram náði einu sinni að minnka muninn í tvö mörk áður en Afturelding jók aftur forskotið.

Það er mikil gleði í leik Aftureldingar og sóknarleiknum stýrt af mikilli röggsemi af leikstjórnandanum unga Elvari Ásgeirssyni.

Vörn Aftureldingar er mjög sterk og skipti engu hvort Davíð Svansson eða Pálmar Pétursson var  í markinu. Markvarslan var góð.

Fram sýndi á köflum það sem býr í liðinu en í kvöld var andstæðingurinn einfaldlega of sterkur. Fram náði aldrei að jafna leikinn og átti liðið í raun minni og minni möguleika er leið á leikinn.

Afturelding er á toppi deildarinnar með fullt hús stiga eftir fjóra leiki en Fram er í neðri hlutanum með 2 stig.

Elvar: Vitum að við getum unnið alla
„Þegar þetta gengur svona vel er ekki ástæða til annars en að vera sáttur með sig,“ sagði sigurreifur Elvar Ásgeirsson leikstjórnandi Aftureldingar.

„Við höfum unnið að því að leika með ákveðni og geðveiki og ef við höfum það með okkur þá erum við mjög sterkir.

„Við vitum alveg að maður vinnur ekkert stórt hér í Safamýrinni. Þeir eru ólseigir. Við vissum að það kæmu góðir kaflar og slæmir kaflar en við kláruðum þetta í lokin eins og við ætluðum að gera.

„Við leggjum upp með baráttu, gleði og sigurvilja. Það er miklu skemmtilegra að gera þetta svona,“ sagði Elvar sem lætur sér hvergi bregða þó liðið sé eitt með fullt hús stiga eftir fjórar umferðir.

„Við settum okkur ekki nein markmið í rauninni. Við vitum að við getum unnið alla og við vitum að við getum líka tapað fyrir öllum ef við eigum ekki okkar leik. Við mætum alltaf til leiks til að vinna og höfum átt fjóra góða leiki.“

Kristófer: Þeir voru númeri of stórir í kvöld
„Þeir eru virkilega erfiðir að eiga við og eru með mjög gott lið eins og við vissum en við erum aftur að lenda í því sama. Við erum að vinna upp forskot en virðumst ekki ná að halda því eða byggja ofan á,“ sagði Kristófer Fannar Guðmundsson markvörður Fram.

„Við erum auðvitað ánægðir með vinnuframlagið og gefumst aldrei upp en þeir voru númeri of stórir fyrir okkur í kvöld.

„Mér finnst þetta vera fyrstu fimm mínúturnar í fyrri hálfleik og aftur í seinni hálfleik þar sem við missum þetta niður. Það er erfitt að eiga við þetta þegar við erum alltaf að elta.

„Við getum verið sáttir við heildina. Við erum að spila ágætlega og þegar við erum að elta þá náum við að minnka muninn en það er hundleiðinlegt að tapa,“ sagði Kristófer sem segir muninn á liðunum í lokin ekki gefa rétta mynd af leiknum.

„Þetta er búið gerast í síðustu tveimur leikjum hjá okkur þar sem síðustu fimm til tíu mínúturnar séu bara hraðaupphlaup, hraðaupphlaup, hraðaupphlaup, aftur og aftur. Þá er munurinn ekki í samræmi við það hvernig leikurinn spilaðist.

„Auðvitað viljum við vinna alla leiki en fyrir mót hefðum við kannski sætt okkur við tvö stig eftir fyrstu leikina. Þetta hafa allt verið hörkulið. Afturelding er búið að sýna og sanna að það er topplið og þeir verða þarna í toppbaráttunni í vetur. Við verðum að rífa okkur upp fyrir mánudaginn á móti HK úti,“ sagði Kristófer.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×