Handbolti

Jóhann fyrstur í bann: Þetta er helvíti hart

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jóhann Jóhannsson skoraði þrjú mörkí fyrstu umferð á móti Stjörnunni og fjögur á móti Val.
Jóhann Jóhannsson skoraði þrjú mörkí fyrstu umferð á móti Stjörnunni og fjögur á móti Val. vísir/valli
Jóhann Jóhannsson, stórskytta Aftureldingar í Olís-deild karla í handbolta, var fyrstur manna úrskurðaður í leikbann á nýrri leiktíð á fyrsta fundi aganefndar HSÍ í gær.

Jóhann fékk rautt spjald með skýrslu á 57. mínútu leiksins þegar hann virtist ýta GeirGuðmundssyni, leikmanni Vals, til jarðar.

Geir fékk sjálfur rautt fyrir að stöðva Pétur Júníusson, línumann Aftureldingar, í hraðaupphlaupi og varð uppi smá æsingur eftir brotið.

Jóhann kom á fullri ferð til að blanda sér í lætin en rann hálfpartinn til og ýtti við Geir sem féll til jarðar. Allt virkar þetta mjög klaufalegt eins og sjá má hér eftir eina mínútu og 17 sekúndur.

„Ég er sammála því. Kannski fékk ég rautt því við rukum allir að þessu. Aðstæðurnar voru bara þannig. En þetta er helvíti hart samt,“ segir Jóhann sem ætlaði sér ekki að hrinda Geir.

„Þetta er allt óviljandi. Við runnum allir þarna nokkra metra. Ég kíkti aðeins á þetta aftur í gær. Mér finnst þetta voðalega saklaust. Ég veit ekki hvort Geir rennur þarna sjálfur eða hvað gerist alveg. Ég ýti við honum eiginlega bara til að stöðva mig.“

Jóhann er þó engan veginn ósáttur við dómarana, hann er bara svekktur að missa af stórleiknum gegn ÍBV á laugardaginn í ljósi þess að Mosfellingar fara vel af stað og eru búnir að vinna tvo fyrstu leiki sína.

„Dómararnir gerðu bara það sem þeir héldu að væri rétt. Það var kominn smá æsingur í leikinn þannig þeir settu tvö rauð spjöld á loft. Ég var samt ánægður með þá í leiknum. Það er bara helvíti leiðinlegt að missa af leiknum gegn ÍBV því við erum á góðum skriði,“ segir Jóhann sem er vitaskuld ánægður með byrjun Aftureldingar.

„Heldur betur. Það er frábært að byrja á tveimur sigrum. Við erum með flott lið og góðan móral. Einar Andri þjálfari er líka með þetta. Hann er seigur karlinn,“ segir Jóhann Jóhannsson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×