Handbolti

Fram og Fjölnir sigruðu á heimavelli

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Guðlaugur Arnarsson, þjálfari Fram.
Guðlaugur Arnarsson, þjálfari Fram. Vísir/Andri Marinó
Framarar eru taplausir á Reykjavíkurmótinu í handbolta eftir að hafa sigrað Víking 30-23 í Safamýrinni í gærkvöld. Þá vann Fjölnir nauman sigur á KR í Grafarvoginum.

Framarar voru mun betri aðilinn í leiknum gegn Víking í gær og leiddu með fimm mörkum í hálfleik í stöðunni 14-9. Framarar bættu við í seinni hálfleik og unnu að lokum öruggan sjö marka sigur, 30-23.

Stefán Baldvin Stefánsson var atkvæðamestur í liði Fram með 7 mörk ásamt því að Ólafur Jóhann Magnússon bætti við öðrum fimm fyrir Fram. Í liði Víkings voru þeir Jóhann Reynir Gunnlaugsson og Arnar Thedórsson atkvæðamestir með sex mörk hvor.

Í Grafarvoginum þar sem Fjölnir tók á móti KR var heldur meiri spenna. KR leiddi í hálfleik í stöðunni 15-17 en heimamenn náðu að snúa taflinu við í seinni hálfleik og vinna nauman eins marka sigur, 29-28.

Kristján Örn Kristjánsson átti stórkostlegan leik í liði Fjölnis en hann skoraði 10 mörk í leiknum en í liði KR var Hermann Björnsson atkvæðamestur með sex mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×