Handbolti

Gunnar: Sindri er ekkert að fara að spila strax

Ingvi Þór Sæmundsson í Kaplakrika skrifar
Gunnar Magnússon verður án varnarmannsins sterka í nokkurn tíma.
Gunnar Magnússon verður án varnarmannsins sterka í nokkurn tíma.
Gunnar Magnússon, þjálfari ÍBV, var að vonum ósáttur eftir að Eyjamanna misstu unninn leik gegn FH niður í jafntefli í kvöld.

„Við fórum illa að ráði okkar og ég var ekki nógu ánægður með varnarleikinn í dag.

„Sóknarleikurinn var lengst af góður, en það komu nokkrar sóknir í seinni hálfleik þar sem við vorum óagaðir og þeir refsuðu okkur um hæl,“ sagði Gunnar sem sá þó ýmislegt jákvætt við leik sinna manna.

„Það er sterkt að koma á erfiðan útivöll og ná í stig. Fyrirfram hefði ég alveg þegið stigið. En miðað við hvernig leikurinn spilaðist vorum við klaufar að klára þetta ekki.“

En hvernig horfir framhaldið við Gunnari?

„Við gerum okkur grein fyrir því að þetta verður erfiður vetur og við hlökkum til að takast á við verkefnið. Þetta er maraþon, við þekkjum það, en við þurfum bara að bæta okkur í hverjum leik og verða betri með hverri vikunni sem líður.

„Leikurinn var svipaður og ég bjóst við en ég hefði viljað halda þetta út. Við erum fullir sjálfstrauts og vitum að við getum unnið hvaða lið sem er, en að sama skapi getum við tapað fyrir hverjum sem er,“ sagði Gunnar.

Sindri Haraldsson, varnarmaðurinn sterki, lék ekki með ÍBV í kvöld vegna meiðsla, en Gunnar segir að hann verði líklega lengi frá.

„Sindri er meiddur á kvið og verður frá í einhvern tíma. Þetta lítur ekkert alltof vel út, hann er slæmur og er ekkert að fara að spila strax.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×