Skoðun

Af hverju er ég að skrifa þennan pistil?

Óttar Martin Norðfjörð skrifar
Af hverju er ég að skrifa þennan pistil? Ég skil ekki neitt. Er í lagi að skrifa pistla þegar maður skilur ekki neitt? Eru kannski of margir pistlar birtir daglega þar sem fólk þykist skilja allt, þessa fínu þræði heimsins, og þess vegna reynir það að veita manni svör, en í sannleika sagt skilur það heldur ekki neitt? Skilur einhver eitthvað?

Ég veit það ekki.

Ég hef ekki tölu á greinunum, pistlunum, fréttaskýringunum og viðtölunum sem ég hef horft á og lesið síðustu daga til að reyna að skilja það sem er að gerast á Gaza. Öll útskýra þau aðdragandann eða rekja átakasöguna, en samt er ég engu nær. Ég skil einfaldlega ekki hvað er að gerast. Ég skil hvers vegna þetta er að gerast, sögulega, en ég skil ekki einhverja aðra, dýpri tegund af „hvers vegna“. Hvers vegna drepur fólk hvert annað? Hvers vegna hafa stríð fylgt manninum frá upphafi? Eru stríð í dag hryllilegri en áður fyrr því við teljum okkur siðmenntaðri með öll okkar mannréttindi, lög og reglur? Erum við siðmenntaðri?

Ég veit það ekki. Ég veit ekki neitt, enda skil ég ekki neitt.

Mér leiðast pistlar sem þykjast veita svör við ósvaranlegum hlutum. Pistlar þar sem höfundar setjast í hálfgerð hásæti með útskýringum sínum á ástandi heimsins, máli málanna þá vikuna. Væri ekki heiðarlegra að viðurkenna að stundum eru engin svör til, engar útskýringar, ekkert sem varpar ljósi á málið, að minnsta kosti ekki í stóra samhenginu?

Kannski. Ég veit það ekki.

Það er sérlega erfitt að skilja heiminn þessa dagana, því þessa dagana erum við minnt á hvernig heimurinn er. Eða getur verið. Eða mun alltaf vera. Eða hefur alltaf verið. Við fáum myndir af látnum börnum sem eru borin um götur Gaza. Við fáum myndir af látnum hermönnum í fyrri heimsstyrjöld sem hófst fyrir 100 árum. Hvernig eigum við að skilja þetta? Hvert er samhengið í gömlu og nýju stríðsmyndunum? Látið fólk í gamla daga vegna einhvers sem enginn skildi þá. Látið fólk í dag vegna einhvers sem enginn skilur nú. Á maður að vera bjartsýnn fyrir hönd mannkyns? Eða svartsýnn? Á maður að trúa því að hlutirnir lagist einn daginn? Eða eiga þeir kannski eftir að verða verri? Mun einhvern tíma eitthvað breytast?

Ég hef ekki hugmynd.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×