Erlent

Stjórnarherinn í Írak endurheimtir Tíkrit

Stjórnarherinn í Írak sækir nú fram gegn hersveitum ISIS.
Stjórnarherinn í Írak sækir nú fram gegn hersveitum ISIS. Vísir/AP
Stjórnarherinn í Írak gerði í dag áhlaup á hersveitir uppreisnarmanna öfgasamtakanna ISIS í borginni Tíkrit í norðurhluta landsins, og er borgin nú að mestu á valdi stjórnarhersins. Talið er að um 60 liðsmenn ISIS hafi fallið í árásinni. BBC greinir frá þessu.

Þúsundir íraskra hermanna, búnir skriðdrekum og orrustuflugvélum réðust í dag á uppreisnarmenn í borginni Tíkrit, sem er norðvestur af höfuðborginni Bagdad og verið hefur á valdi uppreisnarmanna rúmar tvær vikur. Íraska ríkissjónvarpið greindi frá því að árásin hafi borið tilætlaðan árangur, þar sem tekist hefði að hrekja uppreisnarmenn frá borginni. Um 60 uppreisnarmenn féllu í árásinni, þar á meðal háttsettir foringjar.

Harðir bardagar milli uppreisnarmanna og stjórnarhersins voru einnig sunnan við Bagdad, þar sem um 20 stjórnarhermenn féllu.

Að sögn íraska ríkissjónvarpsins býr íraski stjórnarherinn sig nú undir að sækja í norðurátt, að næststærstu borg landsins, Mosul, sem uppreisnarmenn hafa á sínu valdi.

Talið er að aðgerðir stjórnarhersins í Tíkrit hafi verið framkvæmdar í nánu samráði við bandaríska hernaðarráðgjafa sem nú eru í landinu. Bandarískir hermenn taka þó ekki beinan þátt í aðgerðunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×