Innlent

Hjúkrunarfræðingurinn tók sér frest

Stefán Óli Jónsson skrifar
Frá þingfestingu í morgun.
Frá þingfestingu í morgun.
Lögfræðingur hjúkrunarfræðingsins, sem ákærður er fyrir manndráp af gáleysi vegna vanrækslu í starfi, og lögfræðingur Landspítalans fóru fram á frest til að taka afstöðu til ákærunnar þegar málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Málinu var því frestað til 24. júní.

Þetta er í fyrsta skipti sem Landspítalinn og starfsmaður hans eru ákærðir fyrir atvik af þessu tagi en atvikið átti sér stað í október árið 2012. Sjúklingurinn var að jafna sig eftir hjartaaðgerð og var með slöngu, eða svokallaðan ventil, í hálsinum sem þurfti að losa reglulega.

Heimildir Vísis herma að það hafi af einhverjum ástæðum gleymst að losa hann og því hafi maðurinn kafnað og látið lífið. Við dauðsfallið létu starfsmenn spítalans strax vita að grunur léki á að mistök hefðu valdið dauða mannsins og í kjölfarið var gerð rannsókn á vegum Landlæknisembættisins og lögreglunnar.

Niðurstaða rannsóknar spítalans var að margir samverkandi þættir hefðu valdið mistökum en það er algengasta ástæða mistaka í heilbrigðiskerfinu.

Ríkisaksóknari telur brot hjúkrunarfræðingsins, sem er á þrítugasta og sjöunda aldursári, varða við 215. grein almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem kveður á um  að ef bani hlýst af gáleysi annars manns þá varðar það sektum eða fangelsi allt að 6 árum. Saksóknari telur einnig að framangreind háttsemi starfsmannsins varði Landspítala einnig refsiábyrgð samkvæmt lögum um refsiábyrgð lögaðila eins og segir í ákærunni.


Tengdar fréttir

Segir ákæru gegn hjúkrunarfræðingi áfall

Forstjóri Landspítalans segir að tilkynningar um mistök eigi ekki að leiða til leitar að sökudólgum. Heilbrigðisráðherra vonar að málið verði ekki til þess að heilbrigðisstarfsmenn hylmi yfir mistök.

Tvöfaldar vaktir alþekktur veruleiki

Nauðsynlegt er að vinna bug á starfsumhverfi sem ýtir undir mistök að mati formanns Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×