Íslenski boltinn

Kristján: Ingó þekkir leiðina

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Kristján Guðmundsson
Kristján Guðmundsson Vísir/Getty
„Það hefur verið í umræðunni að hvíla völlinn eitthvað aðeins en hann það verður lítið álag á honum síðustu mánuði mótsins,“ sagði Kristján Guðmundsson, þjálfari Keflavíkur, aðspurður hvort heimaleikur hefði ekki verið ofarlega á óskalistanum í dag.

„Við vildum fá heimaleik og erum auðvitað mjög sáttir með það. Við erum ánægðir með mótherjann, fáir segja það upphátt en þú vilt auðvitað mæta mótherjum sem eru sem neðst í deildarkeppninni. Við erum alltaf að spila við lið í Pepsi deildinni en við fáum ekki að spila oft við Hamar.“

Alls munar 40. sætum á liðunum í deildarkeppninni þegar dregið var í hádeginu.

„Við bárum virðingu fyrir Augnablik, við stilltum upp sterku liði og mættum tilbúnir í það. Hamar er kominn í 16-liða úrslit og það verðskuldað svo við þurfum að vera tilbúnir í þennan leik. “

Kristján þekkir nokkra leikmenn Hamars en þjálfari liðsins, Ingólfur Þórarinnsson, Veðurguð, spilaði á samkvæmi fyrir leikmenn Keflavíkur fyrr í vetur.

„Þeir eru með spræka stráka og mann sem elskar tóna sem þjálfar svo þetta verður bara gaman. Hann Ingó spilaði hjá okkur í vetur og þekkir leiðina í Keflavík.“

Aðspurður hvort Ingó hefði séð einhver veikleikamerki á strákunum á því balli var Kristján ekki viss.

„Hann getur eflaust miðlað reynslu um veikleika strákanna, hann hefur eflaust tekið eftir því á böllum,“ sagði Kristján léttur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×