Handbolti

Gunnar: Eyjamenn vita ekki hvað það er að gefast upp

Henry Birgir Gunnarsson á Ásvöllum skrifar
Gunnar Magnússon með Íslandsbikarinn í kvöld.
Gunnar Magnússon með Íslandsbikarinn í kvöld. Vísir/Stefán
"ÍBV er nú búið að vinna tvö ár í röð. 1. deildina í fyrra og núna Íslandsmeistaratitilinn. Ég er orðlaus enda er þetta algjörlega ótrúlegt," sagði Gunnar Magnússon, annar þjálfara ÍBV, eftir að liðið varð Íslandsmeistari í handbolta karla í kvöld.

ÍBV lenti í erfiðri stöðu í síðari hálfleik er það var komið fjórum mörkum undir. Eins og svo oft áður neitaði liðið að gefast upp og kom til baka með stæl.

"Það var alls ekki góð staða þegar það var korter eftir. Þá tókum við leikhlé og sögðum við strákana að þetta væri ekki búið. Við fengum aukakraft úr stúkunni og fórum aftur í gang.

Fólk verður eiginlega að búa í Eyjum til þess að skilja þennan karakter. Þetta fólk gefst ekki upp. Það er búið að lenda í hamförum og veit bara ekki hvað það er að gefast upp. Þetta fólk kemur alltaf til baka."

Gunnari skorti nánast orð til þess að lýsa hrifningu sinni á strákunum og öllu þessu fólki sem stendur á bak við liðið.

"Ég sagði við drengina fyrir leik að við værum ekki bara hérna nokkrir að sækja bikarinn. Það væru yfir þúsund manns með okkur. Við værum öll ein liðsheild og værum að sækja bikarinn saman."


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×