Fjölmiðlamönnunum var rænt af öfgasamtökunum Isis í júní á síðasta ári. Þeir voru handjárnaðir með bundið fyrir augun og geymdir í ljóslitlum kjallara svo mánuðum skipti.
Tyrkneskir hermenn fundu fjölmiðlamennina fyrir tilviljun síðastliðinn föstudag á afskekktu svæði í Tyrklandi þar sem þeir allir voru með bundið fyrir augun.
Orðrómur hefur verið uppi um að Frakkar hafi greitt lausnargjald fyrir frönsku fjölmiðlamennina en því neitar Frakklandsforseti. „Ríkið greiðir aldrei lausnarfé. Við höfum hins vegar lengi verið í viðræðum við þá sem héldu þeim föngnum um að sleppa þeim lausum. Öll samskipti okkar voru eins og í eðlilegum samningaviðræðum,“ segir Hollande en enn eru tveir Frakkar í haldi ódæðismannanna.
Yfir 150 þúsund manns hafa látið lífið í átökunum í Sýrlandi og milljónir hafa flúið heimili sín. Sýrland er einn hættulegasti staður heims fyrir fjölmiðlamenn. Yfir 60 fjölmiðlamenn hafa látið lífið frá því að uppreisn gegn Assad forseta hófst.
Fjölmiðlamennirnir fjórir heita Edouard Elias 23 ára, Didier Francois 53 ára, Nicolas Henin 37 ára og Pierre Torres 29 ára.