Handbolti

Allt undir í Breiðholtinu: ÍR getur farið í fall-umspil eða úrslitakeppnina

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Sturla Ásgeirsson og félagar í ÍR þurfa að vinna í kvöld.
Sturla Ásgeirsson og félagar í ÍR þurfa að vinna í kvöld.
Lokaumferð Olís-deildar karla í handbolta fer fram í kvöld. Spennan er mikil þar sem enn er barist um þriðja til sjöunda sæti deildarinnar og geta lið svo sannarlega haft sætaskipti í kvöld.

ÍR er í áhugaverðri stöðu því liðið getur komist í úrslitakeppnina, haldið sæti sínu án þess að komast í hana eða lent í 7. sæti og farið í umspil við liðin í 1. deildinni um áframhaldandi veru í Olís-deildinni.

ÍR-ingar eru í sjötta sæti með 18 stig og taka á móti FH-ingum sem sem eru sæti ofar með 19 stig. Framarar eru í fjórða sæti, síðasta úrslitakeppnissætinu, með 20 stig. Breiðhyltingar taka á móti FH í kvöld í Austurbergi en leikurinn hefst klukkan 19.30.

Með sigri kemst ÍR í 20 stig og jafnar Fram að stigum svo framarlega að Fram nær ekki í stig gegn erkifjendum sínum í Val á útivelli í kvöld. ÍR batt enda á fjögurra leikja taphrinu í síðustu umferð þegar liðið vann Fram í Safamýri og er því með betri árangur í innbyrðis viðureignum.

Sigur í kvöld og tap hjá Fram þýðir sem sagt að ÍR kemst í úrslitakeppnina þar sem liðið myndi mæta deildar- og bikarmeisturum Hauka.

Vinni FH aftur á móti í kvöld getur það komist í úrslitakeppnina. Jafntefli dugar FH en þá þarf það að treysta á að Valur vinni Fram. Framarar eru einnig undir í innbyrðisviðureignum sínum gegn FH og missa af úrslitakeppninni jafni Hafnfirðingarnir þá að stigum.

En það er ekki bara úrslitakeppnin sem ÍR þarf að hugsa um heldur einnig fall-umspilið. Tapi ÍR í kvöld og Akureyri vinnur botnlið HK, sem verður að teljast ansi líklegt, jafnar Akureyri ÍR-inga að stigum.

Akureyri vann tvo af þremur leikjum sínum gegn ÍR í vetur og er því yfir í innbyrðisviðureignum liðanna. Jafntefli forðar ÍR frá umspilinu sama hvað en tap gæti þýtt meiri spennu í Breiðholtinu fram á sumar.

Til að komast í úrslitakeppnina þarf ÍR að vinna FH og treysta á að Valur vinni Fram.

Til að halda sæti sínu í deildinni þarf ÍR a.m.k. að gera jafntefli í kvöld en tap er í lagi ef HK nær stigi af Akureyri.

Til að enda í sjöunda sæti og fara í umspilið þyrfti ÍR að tapa í kvöld og Akureyri að vinna HK.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×