Fótbolti

Hollendingar fara mjög svipaða leið og Íslendingar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guus Hiddink og Lars Lagerback.
Guus Hiddink og Lars Lagerback. Vísir/AFP
Hollendingar fara nánast sömu leið og Íslendingar þegar kemur að því að ráða þjálfara á karlalandslið þjóðarinnar í fótbolta. Hollenska knattspyrnusambandið tilkynnti nefnilega um næstu tvo þjálfara landsliðsins í dag en það var reyndar vitað fyrir nokkru að Guus Hiddink væri að taka við.

Nú er það hinsvegar endanlega staðfest að Guus Hiddink taki við hollenska landsliðinu af Louis van Gaal eftir HM í Brasilíu í sumar og mun Hiddink stýra Hollendingum út næstu undankeppni EM þar sem Holland er meðal annars í riðli með Íslandi.

Hollenska sambandið tilkynnti ennfremur að Danny Blind taki við hollenska landsliðinu eftir EM 2016 en fram að því verður Blind aðstoðarmaður Guus Hiddink ásamt Ruud van Nistelrooy. Blind fékk því fjögurra ára samning, fyrsti tvö árin sem aðstoðarþjálfari og næstu tvö sem aðalþjálfari.

Knattspyrnusamband Íslands gerði svipaða hluti á dögunum þegar Lars Lagerbäck og Heimir Hallgrímsson voru ráðnir landsliðsþjálfarar en um leið var tilkynnt að Heimir taki síðan einn við landsliðinu eftir EM 2016.

Guus Hiddink er orðinn 67 ára gamall (Lars Lagerbäck er 65 ára) og er nú öðru sinni orðinn A-landsliðsþjálfari Hollendinga en hann þjálfaði einnig liðið frá 1994 til 1998.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×