Handbolti

HK getur fallið úr Olís-deildinni í kvöld

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Atli Karl Bachman og félagar geta fallið í kvöld.
Atli Karl Bachman og félagar geta fallið í kvöld. Vísir/Stefán
Heil umferð fer fram í Olís-deild karla í handbolta í kvöld. Botnlið HK getur endanlega fallið úr deildinni tapi það í kvöld.

HK-ingar eru aðeins með þrjú stig á botni deildarinnar eftir 16 umferðir en liðið er níu stigum á eftir Akureyri þegar tíu stig eru eftir í pottinum.

HK þarf að vinna topplið Hauka í Digranesi til að halda í vonina aðeins lengur en takist það ekki fellur HK þar sem aðeins átta stig verða eftir í pottinum.

Sigur gæti ekki einu sinni dugað HK-ingum ef Akureyri vinnur Fram í Safamýri en þar hefst fyrsti leikur kvöldsins klukkan 18.00.

Íslandsmeistarar Fram eru í harðri baráttu um sæti í úrslitakeppninni en það rígheldur í fjórða sætið. Liðið er með 16 stig rétt eins og ÍR en með betri árangur í innbyrðis viðureignum.

Akureyri er í sjöunda sæti með tólf stig, þremur stigum á eftir FH sem mætir ÍBV í Kaplakrika í kvöld. FH hefur aðeins unnið einn af síðustu sjö deildarleikjum sínum og gæti verið komið í alvarlega fallbaráttu tapi það í kvöld og Akureyri vinni sinn leik.

Stórleikur kvöldsins er í Austurbergi þar sem ÍR tekur á móti Val. ÍR-ingar berjast fyrir sæti í úrslitakeppninni en Valsmenn eru nokkuð öruggir í þriðja sæti sem stendur.

Allir leikirnir verða í beinni textalýsingu á Vísi.

Leikir kvöldsins:

18.00 Fram - Akureyri, Safamýri

19.30 ÍR - Valur, Austurbergi

19.30 FH - ÍBV, Kaplakrika

19.30 Haukar - HK, Digranesi

Staðan í deildinni:

1. Haukar 25

2. ÍBV 22

3. Valur 19

4. Fram 16

5. ÍR 16

6. FH 15

7. Akureyri 12

8. HK 3




Fleiri fréttir

Sjá meira


×