Handbolti

Umfjöllun og viðtöl: ÍBV - Fram 29-24 | Eyjamenn stungu af í seinni

Guðmundur Tómas Sigfússon í Vestmannaeyjum skrifar
Eyjamenn unnu þægilegan sigur, 29-24, á Fram í Vestmannaeyjum í 16. umferð Olís-deildar karla. Eyjamenn styrktu stöðu sína í öðru sætinu með sigrinum en Framarar hafa ekki unnið útileik síðan 3. október.

Leikurinn hófst með miklum látum og þá aðallega frá stuðningsmannasveit Eyjamanna, Hvítu riddurunum, sem létu vel í sér heyra á pöllunum. Hvorugu liðinu tókst að komast meira en tveimur mörkum yfir í fyrri hálfleik.

Þegar að sex mínútur voru eftir af fyrri hálfleik fengu Eyjamenn þrjár tveggja mínútna brottvísanir og léku Framarar því þremur fleiri í tæpar þrjár mínútur.

Arnar Freyr Ársælsson, markahæsti leikmaður Fram í leiknum, skoraði á þeim kafla þrjú mörk. Staðan í hálfleik var 13-14 en Kolbeinn Aron hafði varið níu skot í marki Eyjamanna gegn fimm vörðum skotum markvarða Fram.

Seinni hálfleikurinn byrjaði ansi vel fyrir Eyjamenn sem áttu ekki í neinum erfiðleikum með að komast framhjá vörn gestanna. Þegar að Svavar Már Ólafsson gerði sér lítið fyrir og varði víti Theodórs Sigurbjörnssonar ákváðu heimamenn að skipta í næsta gír og skoruðu því næstu fjögur mörk.

Þá þurftu Framarar að fara að taka áhættu og fóru að spila aðeins framar á vellinum. Eyjamenn nýttu sér það heldur betur og kláruðu leikinn á flottum sóknarleik í bland við sterkan varnarleik.

Munurinn varð mestur sjö mörk þegar að lítið var eftir af leiknum en þá hafði allt gengið á afturfótunum hjá gestunum.

Leiknum lauk svo með fimm marka sigri Eyjamanna, 29-24, sem styrkja því stöðu sína við topp deildarinnar. Framarar sita sem fastast í fjórða sæti deildarinnar en liðunum fyrir neðan þá tókst ekki að sigra sína leiki.

Gunnar: Þetta var sextíu mínútna stríð

„Ég er sáttur við strákana, það var karakter í þeim í seinni hálfleik sem var frábær varnarlega og sóknarlega. Að skora 29 mörk á Fram er frábært,“ sagði Gunnar Magnússon annar þjálfara Eyjamanna eftir sigurinn á Frömurum.

„Framarar eru með hörkulið og við vissum að þetta yrði erfitt. Við stóðumst álagið og vissum að þetta yrði sextíu mínútna stríð, Kolbeinn var frábær í markinu og allir skiluðu sínu,“ sagði Gunnar sem var gríðarlega sáttur við sína menn sem spiluðu vel í dag.

„Þetta eru allt erfiðir leikir og næsti leikur er alltaf eins og úrslitaleikur, FH-ingar eru að berjast fyrir lífi sínu og við verðum klárir í erfiðan leik,“ sagði Gunnar en Eyjamenn sækja FH-inga heim eftir slétta viku.

Guðlaugur: Þorðum ekki að mæta í slaginn

„Þetta er mjög svekkjandi tap, við erum að spila fínan fyrri hálfleik, en í seinni hálfleik förum við að spila sem einstaklingar og gerum alltof mikið af mistökum,“ sagði Guðlaugur Arnarsson þjálfari Framara eftir svekkjandi tap úti í Eyjum.

„Bæði varnarlega og sóknarlega eru það mistökin sem verða okkur að falli. Einnig þorum við ekki að mæta í slaginn við þá í seinni hálfleik,“ sagði Guðlaugur en sjá mátti á honum að hann var ósáttur með sína menn.

Framarar fá Akureyringa heim en Guðlaugur segist vera tilbúinn í hörkuleik en Framarar skelltu Íslandsmeisturum Hauka á heimavelli í síðustu umferð.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×