Hafdís geymdi sitt lengsta stökk þar til í lokaumferð langstökkskeppninnar. Þá hafði hún nokkuð gott forskot á Sveinbjörgu Zophoníusdóttur úr FH og lét vaða. Norðankonan smellhitti á plankann og var greinilegt á svipbrigðum hennar að hún vissi að stökkið hefði verið langt.
Andartökum síðar brutust út mikil fagnaðarlæti þegar ljóst var að Hafdís hafði bætt Íslandsmet Sunnu Gestsdóttur frá árinu 2003 um tólf sentimetra.
Frjálsíþróttavefurinn Silfrið fylgdist grannt með gangi mála í Laugardalnum og náði stökkinu langa á myndband. Sem betur fer enda um sögulegan viðburð að ræða.
Hafdís er nú handhafi beggja Íslandsmeta í langstökki. Hún bætti einmitt met Sunnu Gestsdóttur í langstökki utanhúss síðastliðið sumar með stökki upp á 6,36 metra.
Hafdís bar fyrr í dag sigur úr býtum í 60 metra hlaupi þar sem hún bætti árangur sinn þegar hún hljóp á 7,58 sekúndum. Þá vann hún sigur í 400 metra hlaupinu eftir æsilegan endasprett við Anítu Hinriksdóttur úr ÍR. Fyrir hlaupið fékk hún 1081 stig á lista Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins. Til samanburðar gaf langstökkið henni 1073 stig að því er Silfrið greinir frá.