Handbolti

Magnús fékk að fara heim til Eyja

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Magnús er hér annar frá vinstri.
Magnús er hér annar frá vinstri. Vísir/Stefán
Magnús Stefánsson, leikmaður ÍBV, var fluttur upp á sjúkrahús eftir að hafa fengið slæmt höfuðhögg í leik liðsins gegn Fram í Olísdeild karla í gær.

Magnús vankaðist við höggið og fékk skurð. Hann lá í talsverðan tíma eftir en var svo borin af velli. Gunnar Magnússon, þjálfari ÍBV, segir þó að betur hafi farið en leit út fyrir.

„Hann fékk að fara eftir skoðun í gær og gisti upp á hóteli með okkur í nótt. Hann kom svo aftur til Eyja í morgun,“ sagði Gunnar í samtali við Vísi.

„Hann er nokkuð sprækur í dag en er með hausverk. Hann fékk þar að auki skurð og þurfti að sauma fyrir.“

„Það verður svo bara að koma í ljós hvað verður enda geta höfuðhögg haft langtímaáhrif eins og nýleg dæmi hafa sýnt,“ sagði Gunnar en fyrir stuttu neyddist Rakel Dögg Bragadóttir til að leggja skóna á hilluna eftir að hafa fengið heilahristing. „Læknarnir taka nú við og meta framhaldið,“ bætti hann við.

Gunnar segir að leikmönnum hafi eðlilega verið brugðið við að sjá félaga sinn borinn af velli. „Það er auðvitað alltaf óhuggulegt að sjá leikmenn verða fyrir höfuðmeiðslum,“ sagði Gunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×