Íslenski boltinn

Ásgeir Börkur fundaði með Bjarna

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ásgeir Börkur í leik með Fylkismönnum í sumar.
Ásgeir Börkur í leik með Fylkismönnum í sumar. fréttablaðið/valli
„Hugur minn stefnir út,“ segir Árbæingurinn Ásgeir Börkur Ásgeirsson sem æfir með Fylki þessa dagana. Börkur er samningslaus en æfir með uppeldisfélaginu á meðan unnið er að því að koma honum að hjá erlendu félagi.

Athygli vakti í nóvember þegar Börkur æfði með Frömurum. Töldu einhverjir að miðjumaðurinn væri á leið í raðir Framara sem hafa farið mikinn í félagaskiptum.

„Ég bý náttúrulega þarna við hliðina á Framheimilinu og hafði farið á fund með Bjarna. Hann sagði lítið mál að ég mætti á eina æfingu,“ segir Börkur. Æfingarnar hafi ekki orðið fleiri. En var ekki fleira rætt á fundi þeirra Bjarna en leyfi til að mæta á eina æfingu?

„Vissulega var fleira rætt en bara farið yfir stöðuna. Hann vildi heyra í hvaða pælingum ég væri,“ segir Börkur sem nú klæðist appelsínugulu á æfingum með Fylkismönnum. „Stemningin í Árbænum er alltaf góð. Þeir eru að vinna í sínum málum, hafa fengið tvo leikmenn en ég veit ekki hvort fleira er í gangi.“

Ásgeir Börkur hélt til Noregs síðastliðið vor í láni frá Fylkismönnum. Miðjumaðurinn spilaði með norska liðinu þar til hann sneri aftur til Fylkis um mitt tímabil. Heimkoma hans var í takt við viðsnúning á gengi Fylkis sem var afleitt í fyrri umferðinni en stórgott í þeirri síðari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×