Íslenski boltinn

Skemmtilegt og krefjandi verkefni að koma liðinu á HM

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sigurður Ragnar Eyjólfsson þakkar áhorfendum fyrir stuðninginn eftir lokaleikinn á EM ásamt einum framtíðarleikmanni liðsins; Dagnýju Brynjarsdóttur.
Sigurður Ragnar Eyjólfsson þakkar áhorfendum fyrir stuðninginn eftir lokaleikinn á EM ásamt einum framtíðarleikmanni liðsins; Dagnýju Brynjarsdóttur. Mynd/Daníel
Stjórn Knattspyrnusambands Íslands ákvað á fundi sínum í vikunni að veita Þóri Hákonarsyni umboð til þess að ganga til samninga við Sigurð Ragnar Eyjólfsson.

„Við Þórir erum búnir að ákveða að hittast eftir helgina og fara yfir málið saman,“ segir Sigurður Ragnar sem tók við liðinu í árslok 2006. Ráðning hans á sínum tíma vakti nokkra athygli enda var starfið hans fyrsta á þjálfaraferlinum.

Sigurður þekkti þó vel til hjá KSÍ þar sem hann starfaði sem fræðslustjóri og gerir enn.

Liðið fór í úrslitakeppni Evrópumótsins árið 2009 undir stjórn Sigurðar og endurtók leikinn í sumar þar sem liðið komst í átta liða úrslit. Draumurinn um að koma íslensku landsliði á HM er þó enn óuppfylltur.

„Það er markmiðið sem við eigum eftir og settum okkur fyrir löngu síðan. Það er krefjandi verkefni hvort sem það kemur í minn hlut eða einhver annar stýrir liðinu,“ segir Sigurður Ragnar sem segir liðið standa á ákveðnum tímamótum.

„Það þarf að fara að huga að því að byggja upp nýtt lið. Þau kynslóðaskipti gætu tekið tíma. Það gæti þó verið skemmtilegt og krefjandi verkefni,“ segir Sigurður.

Athygli vakti að Sigurður Ragnar valdi reynsluboltann Eddu Garðarsdóttur ekki í lokahóp sinn fyrir EM í sumar. Líklegt verður að telja að Edda, sem gengin er í raðir Vals, hafi leikið sinn síðasta landsleik undir stjórn Sigurðar. Þá hefur fyrirliðinn Katrín Jónsdóttir lagt skóna á hilluna. Saman eiga stöllurnar 235 A-landsleiki að baki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×