Innlent

„Þetta kemur Dögun ekkert við“

Margrét Sverrisdóttir
Margrét Sverrisdóttir
Margrét Sverrisdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri Frjálslynda flokksins, hefur enn ekki fengið greiddar 614 þúsund krónur, auk dráttarvaxta, sem flokkurinn var dæmdur til að greiða henni árið 2009. Margrét furðar sig á því að Dögun, sem Frjálslyndi flokkurinn er nú runninn inn í, skuli hafa ráð á að auglýsa fyrir komandi kosningar en hún sitji eftir án greiðslu.

„Þetta er bara ergilegt,“ segir hún. „Flokkur sem er ríkisrekinn og á alls konar styrkjum er dæmdur til að greiða ein kvenmannsmánaðarlaun en það er aldrei greitt. Svo er talað um réttlæti og sanngirni þegar farið er í framboð næst. Þeir hafa haft mörg tækifæri til að greiða einni konu laun sem henni bar með réttu að fá.“

Guðjón Arnar Kristjánsson, fyrrverandi formaður Frjálslynda flokksins og núverandi liðsmaður Dögunar, segir Frjálslynda flokkinn hægt og rólega vera að semja um skuldir sínar og þegar komi að því að gera upp við Margréti verði vonandi hægt að semja við hana líka.

„En þetta kemur Dögun ekkert við. Það fóru engar skuldir með Frjálslyndum yfir í Dögun. Ég skil það samt að Margrét hugsi þetta svona, hún heldur líklega að við höfum gert það sama og Íslandshreyfingin þegar hún gekk inn í Samfylkinguna og tók allar tugmilljóna skuldirnar með sér. Það er hins vegar ekki þannig.“ - sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×