Sport

Aníta getur hlaupið hraðar í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aníta Hinriksdóttir keyrði upp hraðann í byrjun.
Aníta Hinriksdóttir keyrði upp hraðann í byrjun. Mynd/NordicPhotos/Getty
Aníta Hinriksdóttir tryggði sér í gær sæti í undanúrslitum í 800 metra hlaupi kvenna á EM innanhúss í Gautaborg þegar hún varð níunda í undanrásum.

Aníta hljóp á 2:04.72 mínútum en Íslandsmet hennar frá því í febrúar er 2:03.27 mínútur. Aníta kom þriðja í mark í sínum riðli en þrjár efstu komust áfram.

Aníta tók forystuna strax í byrjun og var fyrst í sínum riðli eftir bæði 200 og 400 metra. Hún gaf eftir í lokin en hélt 3. sætinu.

„Ég held að hún hafi hlaupið fyrstu 400 metrana svona hratt af því að spennustigið var svo hátt. Núna er hún búin að taka það svolítið úr sér, ég veit að hún hleypur jafnara hlaup í dag. Hún sér eftir þetta hlaup og ég líka að hún getur hlaupið hraðar í dag ef hún nær að útfæra hlaupið öðruvísi," sagði Gunnar Páll Jóakimsson, þjálfari Anítu.

„Spennustigið var mjög hátt og hún hleypur fyrsta hringinn hraðar en við plönuðum. Ég vissi alveg að það gæti gerst. Það var því draumur að komast áfram og ég efast ekki um það að hún hlaupi mjög vel á morgun (í dag)," segir Gunnar. Sex efstu komast í úrslit en undanúrslitahlaupið fer fram klukkan 16.38 í dag.

„Hún verður að hlaupa hraðar en í gær og það er það sem hún stefnir á. Við getum samt ekkert verið ósátt því þetta er mjög gott hjá henni á fyrsta stórmóti fullorðinna," sagði Gunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×