Handbolti

Patrekur sendir alla leikmenn Hauka í Foam flex tíma á morgun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Patrekur Jóhannesson, þjálfari Hauka.
Patrekur Jóhannesson, þjálfari Hauka.
Patrekur Jóhannesson, þjálfari Hauka, sá sína menn ná þriggja stiga forskoti á toppi Olís-deildar karla í handbolta í kvöld eftir þriggja marka endurkomusigur á Fram, 20-17. Fram var 15-9 yfir þegar sautján mínútur voru til leiksloka en Haukar fóru þá í gang og unnu lokakafla leiksins 11-2.

„Það verður ekki frí hjá strákunum á morgun því við förum saman í líkamsræktarstöðina Hress þar sem farið verður í Foam flex klukkan 16.30," sagði Patrekur eftir sigurinn í kvöld.

„Þetta er sniðugur tími hjá Nonna í Hress vini mínum. Það er heitt inn í salnum og þeir eru að nota þessaer rúllur sem allir eru með. Þetta er nuddtími í klukkutíma," sagði Patrekur.

En hvað er Foam flex? "Foam flex er sjálfnuddandi aðferð þar sem unnið er á vöðvum, bandvef og trigger-punktum sem stuðla að skjótari bata og fyrirbyggjandi meiðslahættu ásamt auknum liðleika," segir um þennan tíma á heimsíðu líkamsræktarstöðvarinnar Hress í Hafnarfirði.

„Á laugardaginn tókum við síðan ágætis æfingu og undirbúum okkur fyrir Víkingsleikinn sem er á sunnudaginn," sagði Patrekur en Haukar mæta þá 1. deildarliði Víkinga í bikarkeppninni.

„Ég er með ungt lið. Það fóru fimm til sex eldri leikmenn frá liðinu og við tókum marga unga inn. Ég er að reyna að kenna strákunum að það er ekki bara næsti leikur sem skiptir máli heldur næsta æfing og hvað menn gera á milli æfinga og leikja. Það er það sem telur ef menn ætla að ná í landslið og á toppinn því þá verða menn að lifa eins og atvinnumenn. Ég er að reyna að kenna þeim það," sagði Patrekur sem sjálfur á að baki frábæran feril sem atvinnumaður og landsliðsmaður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×