Íslenski boltinn

Til umræðu að spila níu gegn níu í yngri flokkum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mynd/Vilhelm
Knattspyrnuþjálfarafélag Íslands fundar á mánudagskvöldið. Til umræðu verður að leikmenn í yngri flokkum karla spili níu gegn níu.

Mörgum strákum og stelpum reynist stökkið úr 5. flokki upp í 4. flokk erfitt. Við þau tímamót fara leikmenn úr því að spila 7 gegn 7 á hálfum velli í 11 gegn 11 á heilum velli. Mörkin stækka til muna, rangstöðureglan tekur gildi auk þess sem leiktími lengist.

Á fundinum verður rætt hvort gera eigi breytingar á fyrirkomulaginu í 4. og 5. flokki. Gestir fundarins eru hvattir til að kynna sér skýrslu á vegum danska knattspyrnusambandsins þar sem skoðað er hvaða fjöldi leikmanna og stærð á velli henti best fyrir hvern aldurshóp.

Í niðurstöðum skýrslunnar liggur fyrir tillaga um fjölda leikmanna og stærð á velli:

7 ára og yngri

3 gegn 3 og leikvöllur 13x21 metrar

10 ára og yngri

5 gegn 5 og leikvöllur 30x40 metrar

13 ára og yngri

8 gegn 8 og leikvöllur 52.5x68 metrar (hálfur völlur)

14 ára og eldri

11 gegn 11 og leikvöllur 68x105 metrar (heill völlur)

Skýrsluna í heild sinni má sjá hér.

Fundurinn á mánudagskvöldið er opinn öllum áhugasömum um málefnið. Hann fer fram í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardal og hefst klukkan 20.

Dagskrá fundarins:

a) Rætt verður um hvort taka eigi upp 9v9, á hvaða aldri og hvernig keppnisfyrirkomulagið eigi að vera. Til hliðsjónar eru menn beðnir um að kynna sér nýlegar skýrslur DBU (sjá viðhengi).

b) Hvaða breytingar mætti gera á keppnisfyrirkomulagi í 4. og 5. flokki. ABCD flokkun, úrslitakeppnir, leikjaálag, árgangaskipting o.fl.

Þeir sem vilja koma skoðunum sínum á framfæri en komast ekki á fundinn geta sent greinargerð á Daða Rafnsson, yfirþjálfara hjá Breiðabliki, á netfangið dadir(hja)breidablik.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×