Handbolti

Haukarnir á toppinn eftir stórsigur fyrir norðan

Birgir Hrannar Stefánsson í Höllinni skrifar
Elías Már Halldórsson.
Elías Már Halldórsson. Mynd/Valli
Haukar komust í efsta sæti Olísdeildar karla í handbolta í kvöld eftir átta marka sigur á Akureyri, 30-22, fyrir norðan í 6. umferð Olís-deildar karla í handbolta. ÍR og FH geta bæði náð toppsætinu af Haukum toppsætinu seinna í kvöld.

Sigur Hauka var mjög öruggur en Haukaliðið reif sig upp eftir slæman skell á heimavelli í Evrópukeppninni um síðustu helgi.

Akureyrarliðið tapaði þarna í fjórða sinn í síðustu fimm leikjum en norðanmenn eru enn að vinna sig út úr því að missa marga sterka leikmenn fyrir tímabilið.

Þeir eru þrátt fyrir það varla sáttir með að steinliggja í öðrum heimaleiknum í röð en norðanmenn töpuðu með 13 marka mun fyrir ÍBV í Höllinni á Akureyri á dögunum.

Nýi landsliðsmaðurinn Árni Steinn Steinþórsson átti fínan leik hjá Haukum og skoraði sjö mörk en hægri vængurinn var mjög öflugur hjá Hafnarfjarðarliðinu því Elías Már Halldórsson skoraði einnig sjö mörk. Sigurbergur Sveinsson skoraði 6 mörk eins og Árni.

Haukar komust í 3-0 og 8-2 í þessum leik og voru síðan fimm mörkum yfir í hálfleik, 14-9. Sigurinn var síðan aldrei í hættu í seinni hálfleiknum.

Akureyri - Haukar 22-30 (9-14)

Mörk Akureyrar: Bjarni Fritzson 7, Kristján Orri Jóhannsson 6, Arnór Þorri Þorsteinsson 4, Sigþór Árni Heimisson 3, Andri Snær Stefánsson 1, Daníel Mattíasson 1.

Mörk Hauka: Elías Már Halldórsson 7, Árni Steinn Steinþórsson 7, Sigurbergur Sveinsson 6, Jón Þorbjörn Jóhannsson 4, Þórður Rafn Guðmundsson 2, Tjörvi Þorgeirsson 1, Matthías Árni Ingimarsson 1, Þröstur Þráinsson 1, Einar Pétur Pétursson 1.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×