Valskonur rifu sig upp eftir að hafa misst frá sér sigur í lokin á móti Gróttu í vikunni og sóttu tvö stig á Ásvelli í 5. umferð Olís-deildar kvenna í handbolta í dag. Valur vann þá sex marka sigur á Haukum, 28-22, í Schenkerhöllinni.
Valsliðið komst á toppinn með þessum sigri en liðið hefur spilað leik meira en Stjarnan sem er eina liðið í deildinni sem hefur fullt hús. Stjarnan vann þrettán marka sigur á HK fyrr í dag.
Hrafnhildur Skúladóttir er í flottu formi og var markahæst í Valsliðinu með níu mörk en Ragnhildur Rósa Guðmundsdóttir kom næst með sex mörk.
Það gekk mun betur hjá hinu Hafnarfjarðarliðinu því FH-liðið vann glæsilegan átta marka sigur á KA/Þór, 27-19, þar sem Steinunn Snorradóttir fór á kostum og skoraði tíu mörk. FH-konur töpuðu þremur fyrstu leikjum sínum á tímabilinu en hafa nú unnið tvo leiki í röð.
Haukar - Valur 22-28 (11-12)
Mörk Hauka: Marija Gedroit 12, Ragnheiður Ragnarsdóttir 3, Viktoria Valdimarsdóttir 3, Agnes Ósk Egilsdóttir 2, Silja Ísberg 1, Áróra Eir Pálsdóttir 1.
Mörk Vals: Hrafnhildur Skúladóttir 9, Ragnhildur Rósa Guðmundsdóttir 6, Kristín Guðmundsdóttir 4, Karolína Bæhrenz Lárusdóttir 4, Rebekka Rut Skúladóttir 3, Bryndís Elín Halldórsdóttir 1, Marnela Ana Gherman 1.
FH - KA/Þór 27-19 (16-11)
Mörk FH: Steinunn Snorradóttir 10, Heiðdís Rún Guðmundsdóttir 5, Berglind Ósk Björgvinsdóttir 4, Sigrún Jóhannsdóttir 3, Ingibjörg Pálmadóttir 2, Aníta Mjöll Ægisdóttir 2, Hulda Bryndís Tryggvadóttir 1.
Mörk KA/Þór: Birta Fönn Sveinsdóttir 4, Martha Hermannsdóttir 4, Simone Pedersen 3, Erla Hleiður Tryggvadóttir 3, Arna Valgerður Erlingsdóttir 3, Lilja Sif Þórisdóttir 1, Laufey Lára Höskuldsdóttir 1.
