KR-ingar hefja í dag söfnun til handa KRTV en KR-ingar hafa undanfarin ár sýnt frá heimaleikjum liðsins í gegnum netið. Nú ætla forráðamenn KRTV að hætta að leigja búnaðinn sem þarf í útsendingarnar og stefna nú að því festa kaup á eigin búnaði. Þetta kemur fram á heimasíðu KR.
Í dag, sunnudaginn 8. september, verður því hleypt af stokkunum söfnum til handa KRTV. Forráðamenn stöðvarinnar hvetja alla KR-inga og aðra áhugamenn um körfuknattleik að leggja sér lið og styðja KRTV.
Hugmyndin er að með kaup á eigin búnaði verði hægt að nýta og reka KRTV á miklu stærri grundvelli heldur en áður hefur verið gert. Það er hægt að styrkja stöðina með því að leggja pening inn á söfnunarreikning KRTV en upplýsingar um hann eru hérna fyrir neðan.
KR-ingar settu fram markmið sín í fréttinni:
- KRTV stefnir að því að senda út frá öllum leikjum körfuknattleiksdeildar KR í DHL höllinni. Þá er átt við alla flokka kvenna og karla.
- KRTV stefnir að því að senda út í háum gæðum og útsending verði stöðug.
- KRTV stefnir að því að senda út allan sólarhringinn. Þegar ekki er verið að senda beint út frá leikjum eru gamlir leikir, ný og gömul tilþrif látin ganga í „loop-u“.
- KRTV stefnir að taka upp alla leiki hjá öllum flokkum sem leiknir eru í DHL höllinni og varðveita til framtíðar. Varðveislugildi slíkra myndbanda verður ómetanlegt þegar fram líða stundir.
- KRTV stefnir að vera með litla sjónvarpsstöð í fréttamannastúku DHL hallarinnar.
KRTV ætlar að þjálfa ungt fólk við hin ýmsu verkefni sem lítil sjónvarpsstöð þarf að sinna. Klipparar, mixarar, upptökumenn, hljóðmenn, grafík og fleira.
Söfnunarreikningur KRTV:
Reiknisnúmer: 0137-26-010220
Kennitala: 510987-1449
