Íslenski boltinn

Spænsk þrenna tryggði Selfyssingum sigur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Javier Zurbano er þarna númer 18.
Javier Zurbano er þarna númer 18. Mynd/Daníel
Selfyssingar eru að komast á skrið í 1. deildinni í fótbolta en liðið vann 4-2 heimasigur á Leikni í kvöld. Selfoss vann 3-1 útisigur á toppliði Grindavíkur í umferðinni á undan. Spánverjinn stæðilegi Javier Zurbano skoraði þrennu í leiknum í kvöld.

Gunnar Guðmundsson, þjálfari Selfoss, er búinn að koma sínum mönnum í gírinn en Selfossliðið tapaði þremur af fyrstu leikjum sínum í sumar.

Spánverjinn Javier Zurbano skoraði tvö fyrstu mörkin á fyrstu 25 mínútunum en Óttar Bjarni Guðmundsson minnkaði muninn fyrir Leikni rétt fyrir hálfleik.

Joseph David Yoffe kom Selfossi í 3-1 á 51. mínútu og hann hefur þar með skorað 7 mörk í 8 leikjum með Selfossliðinu í 1. deildinni í sumar.

Ólafur Hrannar Kristjánsson minnkaði muninn í 3-2 á 60. mínútu en Javier Zurbano innsiglaði þrennuna með því að koma Selfossi í 4-2 á 69. mínútu.

Leiknismenn voru manni færri síðustu tólf mínútur leiksins eftir að Helgi Óttarr Hafsteinsson fékk rautt spjald.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×