Íslenski boltinn

Scott Ramsay með tvö mörk í Grindavíkursigri

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Scott Ramsay.
Scott Ramsay. Mynd/Stefán

Grindvíkingar unnu 6-1 stórsigur á BÍ/Bolungarvík í 3. umferð 1. deildar karla í fótbolta í dag en þetta var fyrsta tap Vestfirðinga í deildinni í sumar. Grindvíkingar unnu aftur á móti sinn annan leik í röð. Scott Ramsay, Stefán Þór Pálsson og Magnús Björgvinsson skoruðu allir tvö mörk fyrir Grindavík í dag. BÍ/Bolungarvík endaði leikinn með aðeins níu menn inn á vellinum.

 

Grindavík er í hópi með BÍ/Bolungarvík, Haukum og Víkingi en öll liðin hafa náð í sex stig í fyrstu þremur umferðunum. BÍ/Bolungarvík var búið að vinna tvo fyrstu leikina með markatölunni 3-1.

 

Magnús Björgvinsson kom Grindavík í 1-0 á 20. mínútu en Alexander Veigar Þórarinsson, fyrrum leikmaður Grindavíkur, jafnaði metin á 41. mínútu. Stefán Þór Pálsson kom Grindavík hinsvegar aftur yfir á lokamínútu fyrri hálfleiks.

Scott Mckenna Ramsay skoraði síðan tvisvar með tólf mínútna millibili í seinni hálfleiknum og inn á milli markanna fékk Sigurgeir Sveinn Gíslason, leikmaður BÍ/Bolungarvíkur rautt spjald, vegna tveggja gulra spjalda.

Stefán Þór Pálsson bætti við sínu öðru marki á 71. mínútu og er þar með kominn með þrjú mörk á tímabili en hann kom til liðsins frá Breiðabliki.

Magnús Björgvinsson skoraði sitt annað mark úr víti á 82. mínútu en áður hafði Alejandro Berenguer Munoz verið rekinn af velli.

Þetta voru tvö fyrstu mörk Scottie Ramsay  á tímabilinu en hann er á 38. aldursári. Hann skoraði eitt mark í 18 leikjum í Pepsi-deildinni í fyrrasumar.

Upplýsingar um markaskorara eru fengnar frá vefsíðunni úrslit.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×