Íslenski boltinn

Langþráður sigur hjá strákunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Daði Böðvarsson.
Jón Daði Böðvarsson. Mynd/Daníel
Íslenska 21 árs landsliðið í fótbolta byrjar undankeppni EM vel því liðið vann í dag 2-1 sigur á Hvíta-Rússlandi í Minsk. Þetta var fyrsti leikur Íslands í riðlinum og fyrsti sigurleikur 21 árs landsliðsins síðan í september 2011.

Jón Daði Böðvarsson, leikmaður norska félagsins Viking og fyrrum leikmaður Selfoss og Emil Atlason, leikmaður KR, skoruðu mörk íslenska liðsins í leiknum en íslenska liðið komst í 2-0 en spilaði síðan manni færri síðustu 17 mínútur leiksins.

Íslenska 21 árs landsliðið var fyrir leikinn búið að tapa átta leikjum í röð með markatölunni 2-23 eða öllum leikjum sínum síðan að liðið vann 2-1 heimasigur á Belgíu í fyrsta leik sínum í síðustu undankeppni.

Eyjólf Sverrisson, þjálfari liðsins, náði að gíra strákanna upp í kuldanum í Minsk í dag og Jón Daði kom Íslandi í 1-0 með glæsimarki strax á 4. mínútu leiksins en þannig var staðan í hálfleik. Emil Atlason kom íslenska liðinu tveimur mörkum yfir á 51. mínútu.

Sverrir Ingi Ingason, fyrirliði íslenska liðsins, fékk á sig víti og rautt spjald á 72. mínútu og Hvít-Rússar minnkuðu muninn en Denis Kovalevski skoraði markið. Íslenska liðið hélt hinsvegar út manni færri og landaði góðum sigri.



Byrjunarliðið í dag:

Markvörður: Rúnar Alex Rúnarsson

Hægri bakvörður: Orri Sigurður Ómarsson

Vinstri bakvörður: Hörður Björgvin Magnússon

Miðverðir: Brynjar Gauti Guðjónsson og Sverrir Ingi Ingason, fyrirliði

Tengiliðir: Andri Rafn Yeoman og Guðmundur Þórarinsson

Hægri kantur: Jón Daði Böðvarsson

Vinstri kantur: Arnór Ingvi Traustason

Framherjar: Emil Atlason og Kristján Gauti Emilsson






Fleiri fréttir

Sjá meira


×