Fatahönnuðurinn Tom Ford mun sjá um að klæða Justin Timberlake frá toppi til táar þegar kemur að öllu sem tengist nýjustu plötu hans, The 20/20 Experience, sem kemur út síðar á árinu. Þeir eru nú þegar byrjaðir að vinna náið saman við að hanna jakkaföt, skó og skartgripi, en fyrsta afraksturinn má sjá í tónlistarmyndbandi við lagið Suit & Tie sem Justin sendi frá sér á dögunum.
,,Ég dýrka Justin. Hann er með frábæran stíl og er ótrúlega hæfileikaríkur. Það er mér sönn ánægja og heiður að fá að vinna með honum í þessu skapandi verkefni", segir Ford um samstarfið.
Justin Timberlake í jakkafötum eftir Ford í nýjasta tónlistarmyndbandi sínu.