Skoðun

Gjöf þings til þjóðar

Þegar ríkisstjórn vinstri flokkanna eftirlét þjóðinni stjórnarskrána komst loks skriður á málið. Stjórnlaganefnd var skipuð og blásið til þjóðfundar. Afraksturinn varð svo veganesti stjórnlagaráðs sem fullgerði frumvarp að nýrri stjórnarskrá. Frumvarpið var afhent Alþingi síðsumars 2011 og sent stjórnlagaráði aftur til lokayfirferðar í mars 2012. Niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslu um frumvarpið lá svo fyrir þann 21. október sl. Hún var ótvíræð: Þjóðin þáði hina nýju stjórnarskrá með þökkum.

Valdastéttir

Og ekki að furða. Hún inniber þau lýðréttindi sem valdastéttir samfélagsins hafa kerfisbundið haldið frá þjóðinni. Stjórnmálaflokkar forðast valddreifingu eins og heitan eld og vilja að þjóðin dansi í kringum þá en ekki öfugt. Þess vegna er persónukjör þeim andstætt, upplýsing almennings og þjóðaratkvæðagreiðslur. Sömuleiðis vilja viðhlæjendur stjórnmálaflokkanna halda auðlindanýtingu fyrir sig eina og hafna þjóðareign og frjálsri samkeppni. Enda hafa slíkir lagt sig í líma við að gagnrýna hið lýðræðislega ferli nýrrar stjórnarskrár, fundið því allt til foráttu og lagt steina í götu þess. Talað er um sátt sem ekki er til og allt gert til að drepa málinu á dreif. Málþóf stjórnarandstöðunnar fellur undir sama hatt. En þrátt fyrir þetta fyrirferðarmikla andóf er meðbyr úr einni átt. Frá þjóðinni sjálfri. Hún hefur ekki mikið álit á varnaðarorðum þingmanna og sérfræðinga enda ekki langt síðan hún sviðnaði undan sömu aðilum.

Stjórnarskrármálið er eina málið sem ríkisstjórnin getur úr þessu klárað með sóma. Ruglumbull er að láta sérfræðinga tefja för þess frekar. Minnumst þess að þingmeirihluti færði þjóðinni stjórnarskrárgjöfina, þjóðin tók við henni, kláraði og samþykkti afraksturinn. Þinginu ber því skylda til að standa við sinn hlut og samþykkja nýja stjórnarskrá óbreytta fyrir þinglok. Annað væri óhæfa.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×